Flugmennirnir áttuðu sig of seint

Svo virðist sem flugmenn Boeing 777 vélarinnar, sem brotlenti í San Francisco, hafi ekki gert sér grein fyrir því að flugvélin flygi of hægt fyrr en aðeins örfáum sekúndum áður en vélin skall á jörðinni.

Deborah Hersman, forstjóri Öryggis- og samgöngunefndar Bandaríkjanna, segir að upptökur úr stjórnklefanum hafi leitt í ljós að hraði flugvélarinnar barst ekki í tal fyrr en vélin var aðeins um 30 metra frá jörðu.

Níu sekúndum áður en vélin brotlenti var ákveðið að auka hraðann. Tveir flugmannanna sögðust þá vilja hætta við lendingu, annar þremur sekúndum fyrir brotlendingu og hinn einni og hálfri sekúndu síðar. „Það er ekki minnst á hraðann fyrr en um níu sekúndum fyrir brotlendingu,“ sagði Hersman á blaðamannafundi.

Öryggis- og samgöngunefndin hefur áður greint frá því að hraði flugvélarinnar hafi verið 103 hnútar þremur sekúndum fyrir brotlendingu en viðmiðið sé 137 hnútar.

Tveir létust og yfir 180 særðust í flugslysinu á laugardag.

Rannsókn á flugslysinu er í fullum gangi.
Rannsókn á flugslysinu er í fullum gangi. -
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert