Ólga vegna sýknu Zimmermans

Víða um Bandaríkin hafa sprottið upp mótmæli vegna sýknudóms dómstóls í Flórída á hendur George Zimmerman. Zimmerman, sem var gæslumaður í íbúðahverfi, var ákærður fyrir að hafa myrt ungan blökkumann að nafni Trayvon Martin úti á götu.

Zimmerman bar fyrir sig að hann hefði hleypt byssuskotinu af í sjálfsvörn. Ákæruvaldið vildi hins vegar meina að hann hefði elt unglinginn án leyfis og rökstudds gruns, en Martin var með hreint sakavottorð og var auk þess óvopnaður.

Kröfugöngur hafa verið í nokkrum af helstu borgum Bandaríkjanna, en reiði borgaranna beinist fyrst og fremst að því sem þeir vilja meina að séu kynþáttafordómar í lögreglunni. 

Áhyggjur af afleiðingum dómsins

Aðrir hafa lýst yfir áhyggjum sínum yfir þróun löggjafarinnar í landinu. Lögin í Bandaríkjunum hafa lengi vel leyft beitingu ofbeldis við sjálfsvörn á eigin heimili. Hins vegar, ef til átaka kemur á götum úti, ber einstaklingum lögum samkvæmt að halda sig til hlés. Árið 2005 varð Flórída fyrsta ríki Bandaríkjanna til að samþykkja ný lög sem hafa verið kölluð „stand your ground act“. Þau heimila beina beitingu á ofbeldi á götum úti til að koma í veg fyrir skaða á sjálfum sér. 

Rannsóknir á ofbeldi í Flórída benda ekki til þess ofbeldi hafi aukist í kjölfar laganna, en margir vilja meina að áhrifin verði þau að sjálfsvörn geti orðið einhvers konar afsökun í morðmálum. Enn aðrir vilja meina að lögin hafi þau áhrif að fólk af afrískum uppruna sé frekar fundið sekt. 

Fjöldi fólks brást illa við sýknu Zimmermans
Fjöldi fólks brást illa við sýknu Zimmermans Mynd/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert