Fjölmargir mótmæla sýknu Zimmermans

Sýknudómi George Zimmermans hefur verið mótmælt vítt og breitt um Bandaríkin frá því að hann var kveðinn upp á laugardag. Zimmerman var ákærður fyrir að myrða óvopnaðan þeldökkan ungling.

Flest mótmælin voru friðsamleg og var krafist réttlætis til handa fjölskyldu hins 17 ára gamla Trayvons Martins. Mótmælin voru fjölmennust í New York en þar komu þúsundir saman á götum úti.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur beðið landa sína að sýna stillingu í kjölfar dómsins.

Hann sagði dóminn augljóslega vekja sterkar tilfinningar en „við erum réttarríki og kviðdómurinn hefur dæmt í málinu“.

Dómsmálaráðuneytið kannar nú grundvöll fyrir einkamáli gegn Zimmerman. 

Zimmerman var við nágrannavörslu í hverfi sínu er leiðir hans og Martins lágu saman. Hann segist hafa talið Martin vopnaðan og því skotið hann til bana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert