„Söguleg“ lög til verndar verkafólki

Rústir Rana Plaza-verksmiðjuhússins hreinsaðar.
Rústir Rana Plaza-verksmiðjuhússins hreinsaðar. AFP

Þjóðþing Bangladess samþykkti í dag nýja vinnulöggjöf sem styrkir réttarstöðu verkafólks og herðir reglur um öryggi á vinnustað. Frumvarpið var lagt fram í kjölfar mannskæðs slyss í apríl, þegar yfir 1.200 manns létu lífið í textílverksmiðju sem hrundi.

Með slysinu var kastljósi varpað á slæmar aðstæður í ríflega 4.500 verksmiðjum sem fjöldaframleiða fatnað fyrir vestrænan tískumarkað. Lögin sem samþykkt voru í dag eru sögð bæta kjör milljóna verkafólks og segir Israful Alam, talsmaður þingnefndar um verkalýðsmál, þau marka söguleg tímamót.

Sem dæmi má nefna að hér eftir verður verkafólki í Bangladess í fyrsta sinn heimilt að stofna verkalýðsfélög án þess að fá fyrst leyfi til þess frá eigendum verksmiðjanna. Þá ber iðnrekendum nú í fyrsta sinn skylda til að tryggja starfsmenn sína.

Bannað að bæta við hæðum og læsa útgönguleiðum

Samkvæmt nýju lögunum er m.a. bannað að loka útgönguleiðum á verksmiðjuhúsnæði með hengilás, eins og algengt hefur verið í Bangladess. Þá er óheimilt að gera breytingar á verksmiðjuhúsnæði án þess að fá til þess leyfi fyrst eftir öryggisúttekt. Þetta er gert m.a. vegna þess að algengt er að nýjum hæðum sé fyrirvaralaust bætt ofan á byggingar sem ekki bera þyngdina, eins og var tilfellið í Rana Plaza-verksmiðjunni 24. apríl.

Daginn áður sáust sprungur í veggjum hússins, sem var 9. hæðir, en engu að síður var starfsfólk skyldað til að halda áfram störfum og var byggingin því full af fólki þegar hún hrundi á nokkrum sekúndum. Er þetta talið með alvarlegustu vinnuslysum mannkynssögunnar.

Í kjölfar þess varð mikill alþjóðlegur þrýstingur á textíliðnaðinn í Bangladess um umbætur. Neytendur þrýstu á fatafyrirtækin sem í kjölfarið þrýstu á verksmiðjurnar og þar sem textíliðnaðurinn er mikilvægasta útflutningsgrein Bangladess sáu stjórnvöld sér ekki annað kleift en að bregðast við.

Meðal annars riftu Bandaríkin í síðasta mánuði sérstökum verslunarsamningi sem gerður hafði verið við Bangladess með þeim rökum að þar væri ekki nóg að gert til að tryggja öryggi verkafólks.

Leiðtogar verkalýðsfélaga hafa enn varann á og segjast eiga eftir að fara betur yfir lögin til að ganga úr skugga um að tekið hafi verið tillit til ábendinga þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert