Þrettán mótmælendur voru handteknir í Los Angeles í nótt er þeir mótmæltu sýknun George Zimmerman. Er þetta annað kvöldið í röð sem mótmæli brjótast út í borginni en Zimmerman var sýknaður af ákæru um morðið á ungum blökkumanni, Trayvon Martin.
Að sögn borgarstjóra Los Angeles, Eric Garcetti, tóku um 150 mótmælendur þátt í skemmdarverkum í borginni en meðal annars voru unnar skemmdir á verslun Wal-Mart.
Úrskurði kviðdóms í máli George Zimmermans var mótmælt í borgum víða um Bandaríkin í nótt líkt og aðfararnótt mánudags.
Zimmerman skaut óvopnaðan unglingspilt, Trayvon Martin, til bana í Sanford í Flórída í febrúar 2012 en var sýknaður af sex manna kviðdómi á laugardag.
Málið gegn Zimmerman hefur vakið miklar umræður um kynþáttafordóma og byssulöggjöf. Fjölskylda Martins íhugar nú einkamál á hendur Zimmerman en lögfræðingar hans hafa tilkynnt að þeir hyggist höfða mál gegn fréttastofu NBC og saka hana um að hafa klippt símtöl Zimmermans til lögreglunnar þannig að hann virtist vera rasisti.