Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Eric Holder, hvetur til þess að lög um sjálfsvörn verði endurskoðuð eftir að sjálfboðaliði í nágrannagæslu var sýknaður af ákæru um morð eftir að hafa skotið óvopnaðan blökkupilt til bana fyrir slysni í Flórída.
Holder viðraði þessa hugmynd sína á fundi hjá samtökunum, National Association for the Advancement of Colored People (NAACP), í gærkvöldi en mikil reiði er meðal fjölmargra Bandaríkjamanna sem telja að kynþáttahyggja hafi ráðið för þegar George Zimmerman var á laugardag sýknaður af ákæru um morð á Trayvon Martin.
Að sögn Holder er tími til kominn að endurskoða lögin, burtséð frá niðurstöðu dómsins á laugardag. Segir hann að lögunum sé ætlað að bæta eitthvað sem aldrei var brotið.
George Zimmerman var foringi í nágrannavakt fyrir Twin Lakes, lokað byggðarlag í bænum Sanford í Flórída. Zimmerman, sem er af suðuramerískum uppruna, átti sjálfur frumkvæði að því að stofna nágrannavaktina. Wendy Dorival, sem stjórnaði skipulagi nágrannavaktarinnar fyrir hönd lögreglunnar á staðnum, segir að hún ítreki ávallt að þeir, sem eru á nágrannavaktinni, eigi að vera „augu og eyru“ lögreglunnar, þeir eigi ekki að taka lögin í sínar hendur, ekki að bjóða neinum byrginn, heldur hringja í lögreglu. Ekki eigi að koma til greina að menn beri byssu á nágrannavaktinni.
Zimmerman var látinn laus eftir að hann skaut Trayvon Martin, óvopnaðan ungling, sem var á gangi klæddur hettupeysu með hettuna á höfði, til bana. Hann bar við sjálfsvörn.
Lögreglustjórinn í Sanford, Bill Lee, hefur mætt harðri gagnrýni fyrir að láta Zimmerman lausan og hætti störfum tímabundið. Hann kveðst hins vegar ekki hafa átt annars kost en að sleppa Zimmerman út af lögum, sem sett voru í Flórída árið 2005 um sjálfsvörn. Samkvæmt þeim nýtur hver sá, sem banar einhverjum, friðhelgi frá því að vera sóttur til saka ef hann mátti með rökum ætla að honum stafaði lífshætta af honum. Lee telur að vegna þessara laga hafi hendur hans verið bundnar gagnvart Zimmerman.
Trúarleiðtogar bandarískra blökkumanna hafa hvatt til mótmæla á laugardag en einn helsti mannréttindafrömuður bandarísku baptistakirkjunnar, Al Sharpton, fer þar fremstur í flokki. Þegar hefur verið tilkynnt um mótmælagöngur í meira en eitt hundrað bandarískum borgum á laugardag.