Háttsettur yfirmaður í röðum Talibana í Pakistan hefur skrifað Malölu Yousafzai, sem liðsmaður Talibana reyndi að myrða í október í fyrra, bréf þar sem hann hafnar því að reynt hafi verið að myrða hana vegna baráttu hennar fyrir menntun stúlkna. Skotárásin hafi verið vegna þess að hún hafi staðið að óhróðursherferð gegn Talibönum.
Bréfið er ritað stuttu eftir að Malala, sem er aðeins 16 ára gömul, ávarpaði þing Sameinuðu þjóðanna. Ávarpið vakti athygli um allan heim. Talið er að Talibanar séu með bréfinu að reyna að draga úr áhrifum ræðunnar í Pakistan.
„Þeir héldu að byssukúla myndi þagga niður í okkur, en það var rangt,“ sagði Malala sem lagði áherslu í ræðunni á menntun barna og hvatti þjóðir heimsins til að taka saman höndum til að auka hana.
Sá sem skrifaði bréfið heitir Adnan Rasheed. Hann var dæmdur til dauða fyrir að reyna að myrða Pervez Musharraf, fyrrverandi forseta Pakistan. Rasheed slapp á síðasta ári úr fangelsi í Pakistan eftir ævintýranlegan flótta.
Í bréfinu biðst Rasheed ekki afsökunar á morðárásinni á Malölu, en segir að hann óski þess að hún hafi ekki átt sér stað. Hann hvetur Mölulu til að snúa aftur til Pakistans og berjast fyrir íslam.
Malala hefur sagt að hún stefni að því að snúa heim til Pakistans, en hún var flutt á sjúkrahús í Bretlandi eftir skotárásina. Hún hefur farið í nokkrar aðgerðir á höfði, en höfuðkúpa hennar skaddaðist alvarlega í árásinni.