Ariel Castro, sem hélt þremur konum nauðugum á heimili sínu í Cleveland Ohio í mörg ár, mætti í réttarsal í gær í annað sinn. Honum var lesin ítarlegri ákæra og er hún nú í 977 liðum. Castro neitaði staðfastlega sök í þeim nýju ákæruliðum sem honum hafa nú verið birtir.
Castro er ákærður fyrir mannrán, nauðgun og fjölmörg önnur brot. Hann er einnig ákærður fyrir að hafa orðið valdur af fósturmissi einnar konunnar með því að svelta hana og berja. Verði hann fundinn sekur um slíkt er mögulegt að hann verði dæmdur til dauða.
Castro er talinn í sjálfsvígshættu.
Verjendur hans segja að hann sé tilbúinn að játa brotin á sig verði tryggt að hann verði ekki dæmdur til dauða.