Frekari niðurskurður hjá hinu opinbera var samþykktur á gríska þinginu í gær. Niðurskurðurinn hefur það í för með sér að þúsundir munu missa vinnuna.
Alls greiddu 153 þingmenn atkvæði með frumvarpinu en 140 voru á móti. Á meðan atkvæðagreiðslan stóð yfir mótmæltu þúsundir Grikkja fyrir utan þinghúsið í Aþenu.
Ríkisstjórn Grikklands undir forsæti Antonis Samaras segist ekki eiga aðra úrkosti en að setja af stað sársaukafullar aðgerðir en nýju lögin tengjast nýlegu láni Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til gríska ríkisins.
Nýju lögin þýða það að yfir fjögur þúsund ríkisstarfsmenn, þar á meðal kennarar og starfsfólk á opinberum skrifstofum, munu missa vinnuna í ár. Í lok árs verða einnig gerðar breytingar á kjörum 25 þúsund ríkisstarfsmanna til viðbótar. Það þýðir að átta mánuði ársins fá viðkomandi starfsmenn einungis 75% launa sinna. Margir óttast að lendi þeir í þessum hópi endi það með því að þeir missi vinnuna en talið er að 11 þúsund opinberir starfsmenn verði búnir að missa vinnuna í lok næsta árs.