„Trayvon Martin hefði getað verið ég fyrir 35 árum,“ sagði Barack Obama, Bandaríkjaforseti á blaðamannafundi í dag og lofsamaði jafnframt foreldra Martin fyrir aðdáunarverðan styrk sýndan í málinu. Þá varaði hann fólk við því að grípa til ofbeldis, en frá því að dómurinn féll í máli Trayon Martin hefur fjöldi manna safnast saman víðs vegar um Bandaríkin til mótmæla.
Obama kallaði jafnframt eftir endurskoðun laga um sjálfsvörn, og þá sérstaklega í þeim ríkjum Bandaríkjanna sem menn hafa mjög rúmar heimildir til að grípa til vopna.
„Þegar ég heyrði fyrst af árásinni sagði ég að Martin hefði getað verið sonur minn, en ég get einnig sagt að þetta hefði getað verið ég fyrir 35 árum síðan.“ Obama sagði málið vera hluta ef enn stærra máli, sem varðar kynþátta mismunun. „Hefði Trayvon Martin haft jafnan rétt til að bregðast til varna ef honum hefði fundist sér ógnað af Zimmerman? Ef svarið við spurningunni er að einhverju leyti óljóst sýnir það að þörf er á endurskoðun laga. “
Foreldrar Martin sögðu að þau væru djúpt snortin af ummælum Obama. „Obama sér sjáfan sig í honum og við teljum það vera mikinn virðingarvott við son okkar.“
„Við vonum að í framtíðinni geti barn gengið eftir götunni og ekki þurft að hafa áhyggjur af því að einhver telji það hættulegt, einungis vegna litarháttar eða klæðaburðar,“ sagði móðir Martin.