Barack Obama Bandaríkjaforseti ávarpaði þjóð sína í gær í tilefni af sýknudóminum yfir George Zimmerman sem sakaður var um morðið á Trayvon Martin. Mikil ólga hefur ríkt í Bandaríkjunum frá því að dómurinn féll og hefur fólk mótmælt meintum kynþáttafordómum lögreglu og réttarkerfisins og of rúmum heimildum til vald- og vopnbeitingar óbreyttra borgara.
Þótti mörgum Obama sýna mikið hugrekki með opinskáu ávarpi sínu, en sagðist hann meðal annars hafa getað verið Trayvon Martin fyrir 35 árum.
Ekki voru þó allir eins ánægðir með forsetann og vilja ýmsir, þ. á m. framámenn repúblikana og fréttastöðvarinnar Fox News, meina að með ummælum sínum hafi hann kynt undir ólguna og „látið málið snúast um kynþætti“.
Lét einn þekktur greinahöfundur repúblikana, Dan Riehl, þau orð falla á Twitter-síðu sinni að Obama væri fyrsti „Racist in Chief“ (yfir-rasistinn) og vísaði þar til orðalagsins Commander-in-Chief, sem haft er um Bandaríkjaforseta sem yfirboðara hersins.
Todd Starnes, fréttamaður á Fox News tísti sem svo: „Ummæli Obama í dag réttlæta það sem ég sagði á Hannity (The Sean Hannity Show, íhaldssamur spjallþáttur á Fox News) fyrr í vikunni. Hann er sannarlega að kljúfa þjóð okkar í sundur.“
Hér verða látin fylgja með nokkur skjáskot af tístum um ræðu Obama.
Frétt mbl.is: Obama: „Ég hefði getað verið Trayvon“