Norska konan sem dæmd var í fangelsi í Dúbaí eftir að henni var nauðgað hefur verið boðuð á fund ríkissaksóknara Sameinuðu arabísku furstadæmanna í dag. Stjórnvöld í Noregi hafa haft afskipti af máli hennar og sagðist utanríkisráðherra Noregs, Espen Barth Eide, í gærkvöldi vera vongóður um niðurstöðu fundarins í dag.
Fundarboðið kom mjög á óvart. „Ég hef það ekki gott. Ég kvíði því mjög að heyra hvað þetta þýðir og er hrædd um að vera varpað í fangelsi aftur,“ sagði konan, Marte Deborah Dalelv, í samtali við norska ríkissjónvarpið NRK í gær.
Dalelv er 24 ára gömul. Hún ferðaðist til Dúbaí með vinnufélögum sínum og eftir nótt úti á lífinu vaknaði hún án klæða og gerði sér grein fyrir að henni hafði verið nauðgað. Hún leitaði til lögreglu en í stað þess að taka niður kæru var Dalelv varpað í fangaklefa í fjóra daga og vegabréfið tekið af henni.
Síðasta þriðjudag var hún svo dæmd í 16 mánaða fangelsi fyrir að hafa drukkið áfengi stundað kynlíf utan hjónabands. Málið hefur vakið mikla athygli í Noregi og víðar og hafa tæplega 70.000 manns skrifað undir kröfu á netinu um að henni verði sleppt.
Þá hefur kviknað umræða um það í Noregi hvort tilefni sé til að vara konur formlega við því að ferðast til Dúbaí. „Þetta er land þar sem þú getur átt á hættu að vera nauðgað og verið dæmd í fangelsi ef þú kærir til lögreglu. Ef þetta er venjan á svo kölluðum ferðamannastöðum, þá ætti það að hrinja einhverjum bjöllum í utanríkisráðuneytinu,“ sagði Trine Skei Grande, leiðtogi frjálslyndra í Noregi, í útvarpsviðtali um helgina.
Utanríkisráðherrann Eide ræddi við Dalelv símleiðis í gær og sagðist í samtali við NRK vera vongóður. „Henni líður betur núna að ég held og ég tel að þessi fundur boði góðar fréttir. Við höfum unnið að því alla helgina að setja þrýsting á furstana um að finna skjóta lausn,“ sagði Eide.
Ekki stóð til að málið færi fyrir áfrýjunardómstól fyrr en í september, en Eide segir þá staðreynd að ríkissaksóknari boði nú til fundar gefa fyrirheit um að meðferð málsins verði flýtt og jafnvel að hún verði náðuð eða málið látið niður falla. Hann segist ekki hafa trú á því að henni verði varpað aftur í fangaklefa.
Sendiherra Noregs í Sameinuðu arabísku furstadæmunum mun sitja fundinn með Dalelv.
Frétt mbl.is: Var nauðgað og fékk langan dóm