Prinsessan sem dó af barnsförum

Karlotta lést af barnsförnum aðeins 21 árs að aldri.
Karlotta lést af barnsförnum aðeins 21 árs að aldri.

Nýr ríkisarfi er fæddur í Bretlandi og þjóðin fagnar. Fæðing innan bresku konungsættarinnar hefur ekki alltaf orðið tilefni fagnaðar. Fyrir tæplega 200 árum var þjóðin sem lömuð af sorg. Ástæðan var sú að Karlotta erfðaprinsessa lést af barnsförum. Dauði hennar leiddi til þess að Viktoría varð drottning.

Karlotta var einkadóttir Georgs IV. og þýskrar prinsessu, Karólínu að nafni. Georg IV. hefur ekki fengið góða dóma í sögunni. Hann var þekktur glaumgosi á yngri árum og eyddi öllum sínum tíma í drykkju, fjárhættuspil og kvennafar. Hann giftist á laun einni ástkonu sinni, Maríu Fitzherbert, en hjónabandið varð aldrei löglegt því Georg III., faðir hans, viðurkenndi það ekki. Georg lét hins vegar byggja höll yfir ástkonuna, Royal Pavilion, í Brighton.

Þingið krafðist þess að prinsinn hætt svalli og gifti sig

Georg safnaði gríðarlegum skuldum með líferni sínu og eyðslusemi. Breska þinginu ofbauð framkoma prinsins, en féllst á að greiða skuldir hans gegn því að hann tæki sig á og festi ráð sitt. Prinsinn féllst á það og bað aðstoðarmenn sína að finna einhverja þýska prinsessu. Þeir gerðu tillögu um Karólínu af Brunswick. Þegar Georg hitti verðandi eiginkonu sína sagði hann við aðstoðarmann sinn: „Mér líður ekki vel, get ég fengið glas af koníaki.“

Þó að hjónabandið væri dauðadæmt frá upphafi var efnt til brúðkaups. Brúðguminn var drukkinn á brúðkaupsnóttina, en hann gerði það sem til var ætlast og brúðurin varð ófrísk eftir þeirra fyrstu kynni, en talið er að þau hafi ekki deilt rúmi nema í þetta eina skipti.

Þegar Georg III. lést árið 1820, en hann var geðveikur mestan hluta valdatíma síns, tók sonur hans, Georg IV. við. Karólína krafðist þess að fá að vera viðstödd krýningu hins nýja konungs, en Georg lét læsa öllum dyrum að Westminster Abbey þar sem krýningin fór fram. Karólína reyndi að komast inn en niðurlægð varð hún frá að hverfa. Hún lést nokkrum dögum síðar.

Fæðingin tók um 50 klukkutíma

Karlotta, dóttir þeirra, var eina barn þeirra og því löggiltur erfingi krúnunnar. Hún giftist frænda sínum Leopold af Saxe-Coburg. Hún varð ófrísk tvítug. Meðgangan gekk vel og von var á barninu 19. október 1817. Barnið lét hins vegar bíða eftir sér, en það var ekki fyrr en 4. nóvember sem hún fann fyrir verkjum. Fæðingin gekk afar illa. Fæðingarlæknirinn taldi að barnið lægi þversum og mjög erfiðlega gekk að snúa því. Um 50 klukkutímum eftir að Karlotta fann fyrir hríðum fæddist barnið. Það var drengur, óvenjulega stór, en hann fæddist andvana.

Karlotta var úrvinda af þreytu eftir fæðinguna. Hún kvartaði undan kulda og læknar reyndu að gera það sem þeir gátu til að styrkja hana. Allt kom fyrir ekki og hún lést nokkrum klukkutímum síðar, líklega vegna innri blæðinga.

Læknirinn sem bar ábyrgð á fæðingunni hét Richard Croft. Rannsókn var gerð á dauða prinsessunnar og niðurstaðan var sú að allt hefði verið gert sem hægt var til að bjarga lífi hennar og barnsins. Croft tók hins vegar dauða þeirra mjög nærri sér. Þremur mánuðum eftir dauða þeirra skaut hann sig.

Dauði Karlottu leiddi til þess að Viktoría varð drottning

Eftir dauða Karlottu varð ljóst að Vilhjálmur bróðir Georgs, yrði konungur. Hann bjó þá hamingjusömu lífi með konu af borgaralegum ættum. Þau áttu nokkur börn, en börnin voru ekki skilgetin því foreldrarnir höfðu aldrei gifst. Vilhjálmur dreif þá í að slíta sambandinu við ástkonuna og giftist Adelaide af Saxe-Meiningen, en hún var þýsk prinsessa. Borgin Adelaide í Ástralíu heitir eftir henni. Þau eignuðust börn sem létust öll í frumbernsku.

Þar með varð ljóst að Viktoría, dóttir Edwards, fjórða sonar Georgs III., myndi erfa krúnuna, en Edward lést þegar Viktoría var á fyrsta ári. Hún var drottning Bretlands í 64 ár. Viktoría hefði hins vegar að öllum líkindum aldrei orðið drottning ef Karlotta hefði ekki farist af barnsförnum með svo hörmulegum hætti.

Georg IV. hafði mikinn áhuga á tískustraumum og það sést …
Georg IV. hafði mikinn áhuga á tískustraumum og það sést m.a. á fatastíl hans á þessari mynd.
Georg IV. beitti sér fyrir endurbótum og stækkun Buckingham-hallar og …
Georg IV. beitti sér fyrir endurbótum og stækkun Buckingham-hallar og endurbyggingu Windsor- kastala. Regents-street, ein aðalverslunargata í London, er kennt við Georg IV., en hann fór með völd í forföllum föður síns (regent) þar sem hann var ófær að gegn skyldum sínum vegna geðsjúkdóms. CARL COURT
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka