Ákærður fyrir spillingu og valdníðslu

Bo Xilai
Bo Xilai AFP

Bo Xilai, einn af fyrrverandi forystumönnum kínverska Kommúnistaflokksins hefur nú formlega verið ákærður fyrir mútuþægni og misbeitingu valds í kjölfar hneykslismála sem skóku flokkinn. Eiginkona hans var á síðasta ári dæmd til dauða fyrir morð.

Bo hefur ekki sést opinberlega í rúmlega ár, eða síðan hann var hnepptur í varðhald um tíma, í kjölfar morðsins á breskum kaupsýslumanni sem kona hans var síðar fundin sek um að hafa eitrað fyrir, og eftir að nánasti aðstoðarmaður hans leitaði hælis á bandarískri sendiskrifstofu.

Úr urðu miklar pólitískar deilur og Bo m.a. sakaður um að reyna að hylma yfir morðið til að koma konu sinni frá ákæru og fyrir að hegða sér ósæmilega með frillum. Bo var áður leiðtogi Kommúnistaflokksins í stórborginni Chongqing og meðal 25 æðstu manna landsins en var rekinn úr flokknum með skömm síðasta haust eftir mikið baktjaldamakk.

AFP hefur eftir ónefndum heimildarmanni úr stjórnsýslunni að réttarhöldin hefjist líklega í ágúst. Stór flokksfundur verður haldinn í haust og er talið að flokkurinn vilji ljúka réttarhöldunum fyrir þann tíma. Kommúnistaflokknum sé kappsmál að sýna almenningi að unnið sé gegn spillingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert