Tala látinna í lestarslysinu á Spáni fór hækkandi í nótt og er nú ljóst að minnst 77 létu lífið og yfir 100 slösuðust, þegar farþegalest fór út af sporinu nærri Santiago de Compostela. Þetta er versta lestarslys á Spáni í yfir 40 ár, að því er fram kemur á BBC.
Lestin var á hraðleið frá höfuðborginni Madrid til hafnarborgarinnar Ferrol þegar alls 8 vagnar hennar fóru út af sporinu í beygju um 3 km utan við Santiago de Compostela.
Í spænskum fjölmiðlum kemur fram að talið sé að lestinni kunni að hafa verið ekið á allt að tvöföldum leyfilegum hraða. Nokkrir sjónarvottar hafa sagt í fjölmiðlum að lestin hafi verið á miklum hraða. Einn þeirra, Ricardo Montesco, sagði að vagnarnir hafi „hlaðist hver ofan á annan“ þegar lestin fór út af í beygjunni.
Í tilkynningu frá spænskum stjórnvöldum segir að talið sé að um slys hafi verið að ræða, en ekki hryðjuverk. Orsök slyssins er nú til rannsóknar.
Björgunarmenn unnu á vettvangi slyssins í alla nótt og enn er leitað í braki lestarinnar. 73 lík hafa fundist en að auki létust 4 á sjúkrahúsi. Yfir 140 manns liggja slasaðir á sjúkrahúsum. Þegar fyrstu fregnir bárust af slysinu flykktust íbúar í nágrenni slyssins til að gefa blóð, að beiðni heilbrigðisyfirvalda.
Mariano Rajoy forsætisráðherra Spánar, sem er fæddur í Santiago de Compostela, boðaði neyðarfund ríkisstjórnarinnar seint í gærkvöldi. Hann mun sjálfur fara á vettvang slyssins í dag.
Í dag átti að fara fram stærsta pílagrímshátíð Santiago de Compostela og er von á þúsundum kristinna pílagríma til borgarinnar. Ferðamálaráð borgarinnar tilkynnti hins vegar í morgun að allri hátíðardagskrá sé aflýst í bili.
BBC hefur eftir spænska blaðamanninum Francisco Carnino að borgarbúar séu í áfalli. „Þetta er pínulítill staður og hér gerist aldrei neitt, hvorki mikilvægt né harmrænt. Við vorum bara að undirbúa hátíðahöld og nú virðist hafa orðið versta lestarslys í áraraðir.“
Spænska lestarkerfið er almennt talið fremur öruggt og hefur miklum fjármunum verið varið í uppbyggingu þess.
Allt að fimmtíu látnir á Spáni