Það verður ekki annað sagt en að Vilhjálmur og Katrín hafi haldið í hefðina þegar þau tóku ákvörðun um að nefna son sinn Georg. Síðustu 200 árin hafa ellefu gegnt embætti þjóðhöfðingja í Bretlandi, en sex af þeim hafa borið nafnið Georg.
Á heimasíðu Elísabetar drottningar er að finna lista yfir alla þjóðhöfðingja Englands og Bretlands. Fyrsti konungurinn, Offa, var við völd á árunum 757 til 796. Það er hins vegar ekki fyrr en árið 1714 sem konungur sem ber nafnið Georg tekur við völdum í Bretlandi. Þessi Georg var þýskur prins og hafði lítinn áhuga á Bretlandi.
Aðstæður í Bretlandi á þessum tíma voru þannig að Anna, dóttir Jakobs II., var drottning. Hún eignaðist 17 börn, en þau fæddust annaðhvort andvana eða dóu í æsku. Óvissa skapaðist því um hver ætti að taka við krúnunni. Anna átti að vísu hálfbróður, en hann var kaþólskur og valdastéttin í Bretlandi sætti sig ekki við hann. Það þurfti því að fara langt aftur í ættir til að finna afkomanda sem uppfyllti kröfur um rétta trú og fleira. Fyrir valinu varð Soffía, drottning í Hanover í Þýskalandi. Hún var afkomandi Jakobs I. sem lést 1625.
Það voru engir sérstakir kærleikar milli Önnu og Soffíu. Anna, sem var innan við fimmtugt og orðin heilsutæp eftir allar barneignirnar, setti sér það markmið að lifa lengur en Soffía, svo að hún yrði ekki drottning. Það tókst því Soffía lést 8. júní 1714 en Anna lést tæplega tveimur mánuðum síðar.
Þar með varð Georg, sonur Soffíu, konungur Bretlands. Georg var þá 54 ára gamall og hafði búið í Þýskalandi allt sitt líf. Hann talaði enga ensku og hafði lítinn áhuga á málefnum Bretlands. Tungumálaerfiðleikar og áhugaleysi Georgs I. á Bretlandi áttu sinn þátt í að veikja konungsvaldið og efla völd breska þingsins.
Eiginkona Georgs hét Soffía Dóróthea. Hjónabandið var ekki hamingjuríkt. Eftir að Georg komst á snoðir um að Soffía hefði átt vingott við sænskan aðalsmann lét hann taka aðalsmanninn af lífi og loka drottninguna í stofufangelsi. Þar var hún í rúmlega 30 ár.
Þegar Georg kom til Bretlands tók hann með sér tvær þýskar hjákonur. Hann var ekki vinsæll kóngur og dvaldi mikið í Hanover. Hann lést þar árið 1727. Bretar létu ekki hafa fyrir því að flytja líkið heim og Georg I. er því grafinn í Þýskalandi.
Georg II. tók við af föður sínum. Hann fyrirleit föður sinn, m.a. fyrir að loka móður hans í fangelsi, en hann var 11 ára þegar það gerðist. Móðir hans lést ári áður en Georg II. varð konungur og hann náði því ekki að frelsa hana úr prísundinni.
Enska var ekki móðurmál Georgs II., en hann sinnti hins vegar embættisskyldum af meiri trúmennsku en faðir hans. Hann leiddi breska herinn í orrustu gegn Þjóðverjum, Austurríkismönnum og Hollendingum, en hann er síðastur breskra kónga til að leiða her í orrustu.
Georg II. lést árið 1760. Þess er víða getið í sögubókum að Georg sat á klósettinu í Kensington-höll þegar hann dó.
Elsti sonur Georgs II. hét Friðrik. Það voru litlir kærleikar milli þeirra feðga. Raunar voru átökin milli þeirra svo mikil að Georg rak son sinn úr höllinni þar sem hann bjó. Friðrik lést á undan föður sínum og Bretar hafa því aldrei átt Friðrik fyrir kóng.
Georg III. tók því við af afa sínum. Hann naut vinsælda hjá þjóð sinni í upphafi ferils síns. Hjónaband hans og Karlottu af Mecklenburg-Strelitz var hamingjuríkt, en þau eignuðust 15 börn. Óvenjulegt þótti að Georg III. tók sér ekki hjákonur og var trúr konu sinni.
Georg III. hafði mikinn áhuga á vísindum, listum og landbúnaðarmálum og var oft kallaður bóndinn. Hann heimsótti gjarnan bændur í nágrenni við hallir sínar og ræddi við þá um búskap og ræktun.
Georg III. harmaði mjög að Bretar skyldu missa nýlendurnar í Ameríku (Bandaríkin) og sætti sig aldrei við þá niðurstöðu. Karl, prins af Wales, sagði frá því í sjónvarpsviðtali fyrir nokkrum árum, að Georg III. hefði átt að fara og heimsækja nýlendurnar á þessum róstusömu tímum. Það hefði getað breytt röð atburða.
Georg III. veiktist af geðsjúkdómi á miðjum aldri. Síðustu 10 ár ævi sinnar var hann algerlega vanhæfur til að gegna skyldum sínum.
Georg IV. gegndi störfum fyrir föður sinn meðan hann var veikur. Hann var mikill glaumgosi framan af ævi. Áhugamál hans voru kvennafar, áfengi og fjárhættuspil. Eftir að hafa safnað gríðarlegum skuldum setti þingið honum stólinn fyrir dyrnar og krafðist þess að hann tæki sig á og festi ráð sitt. Hann kvæntist þýskri prinsessu, Karólínu af Brunswick, en hjónabandið var algerlega misheppnað. Þau slitu sambúðinni nokkrum mánuðum eftir brúðkaupið.
Georg IV. hafði mikinn áhuga á listum, arkitektúr og tísku. Hann beitti sér fyrir endurbótum og stækkun Buckingham-hallar og endurbyggingu Windsor-kastala. Regent-street, ein aðalverslunargata í London, er kennd við Georg IV., en hann fór eins og áður segir með völd í forföllum föður síns (regent).
Georg IV. átti eina dóttur, Karlottu, sem fórst af barnsförum eins og fjallað var um á mbl.is fyrr í vikunni.
Vilhjálmur III. tók við af bróður sínum. Hann starfaði í sjóhernum framan af ævi. Hann var talsvert upp á kvenhöndina, eins og flestir bræður hans. Þegar ljóst var að hann myndi erfa krúnuna sleit hann sambandi við barnsmóður sína og kvæntist þýskri prinsessu, Adelaide af Sachsen-Meiningen, en börn þeirra létust kornung.
Þegar Vilhjálmur lést árið 1837 varð Viktoría drottning, en hún var þá 18 ára gömul. Hún ríkti í tæplega 64 ár. Hún missti mann sinn, Albert, á miðjum aldri og syrgði hann alla ævi. Hún bar ekki mikið traust til elsta sonar síns, Játvarðs, og hélt honum frá öllum konunglegum skyldum.
Játvarður VII. var allt annarrar gerðar en foreldrarnir sem lögðu afar mikla áherslu á siðprýði og hefðbundin fjölskyldugildi. Játvarður var tíður gestur á hóruhúsum í París og London. Stuttu áður en Albert dó fór hann til fundar við son sinn til að leggja honum lífsreglurnar. Viktoría sakaði Játvarð um að hafa lagt Albert í gröfina með hneykslanlegu líferni sínu.
Játvarður VII. reyndist hins vegar ágætur kóngur. Hann hafði mikinn áhuga á að efla breska flotann og áttaði sig á að líklegt væri að það kæmi til stríðs milli Bretlands og Þýskalands, þar sem systursonur hans, Vilhjálmur II., réð ríkjum.
Georg V. tók við af Játvarði. Hann var kóngur í fyrri heimstyrjöldinni og gerði sér grein fyrir að það væri frekar neyðarlegt að breska konungsættin væri kennd við hérað í Þýskalandi. Hann lét því breyta nafni ættarinnar úr Saxe-Coburg-Gotha í Windsor.
Georg V. gerði sér líka grein fyrir að konungsfjölskyldan yrði að breyta starfsháttum ef ekki ætti að fara fyrir henni eins og konungsfjölskyldum víða í Evrópu sem voru reknar frá völdum. Hann lagði áherslu á að koma fram opinberlega við ýmis tækifæri. Hann lagði sig fram um að vera viðstaddur þegar ný mannvirki voru tekin í notkun og eftirmenn hans hafa fylgt hans fordæmi hvað það varðar.
Georg V. óttaðist uppgang kommúnista, m.a. í heimalandi sínu. Þegar náfrændi hans, Nikulás II. Rússakeisari, bað um hæli í Bretlandi eftir að hann hrökklaðist frá völdum sagði Georg nei. Hann vildi ekki egna kommúnista í Bretlandi til reiði. Nikulás og fjölskylda hans neyddust því til að vera áfram í Rússlandi, en fjölskyldan var tekin af lífi nokkrum mánuðum síðar.
Georg V. var ekki hlýlegur maður. Hann var strangur faðir og synir hans óttuðust hann. Við andlát hans tók Játvarður VIII. við árið 1936. Innan við ári síðar sagði hann af sér vegna þess að ríkisstjórnin sætti sig ekki við að hann kvæntist Wallis Simpson, tvífráskilinni bandarískri konu.
Það kom því í hlut bróður hans, Alberts, að taka við konungdómi. Hann kaus að taka upp konungsnafnið Georg VI. Hann varð skelfingu lostinn þegar honum varð ljóst að hann yrði konungur, en það var eitthvað sem hann hafði aldrei reiknað með að yrði. Hann stamaði og það var honum sannkölluð kvöl að flytja ræður. Eiginkona hans, Elísabet Bowes-Lyon, hjálpaði honum við að takast á við þennan talgalla. Gerð var fræg bíómynd um þessa baráttu Georgs VI. við stamið.
Georg VI. lagði sig fram um að gegna konungsembætti með reisn. Þegar seinni heimsstyrjöldin braust út hafði Neville Chamberlain forsætisráðherra lagt fram áætlun um að flytja konungsfjölskylduna, stjórnarráðið og þingið frá London. Winston Churchill og Georg VI. komu sér saman um að leggja þau plön til hliðar. Drottningin hafnaði því sömuleiðis að senda dætur sínar upp í sveit á öruggari stað. Georg VI. tókst því á við sprengjuregn Þjóðverja ásamt öðrum íbúum London.
Georg VI. var stórreykingamaður og fékk lungnakrabbamein á miðjum aldri. Elísabet, dóttir hans, var því aðeins 25 ára gömul þegar hún varð drottning. Hún dáði föður sinn og er því vafalaust ánægð með að langömmubarn hennar, sem fæddist 22. júlí, hefur fengið nafn föður hennar. Hann mun væntanlega taka við af Vilhjálmi föður sínum (sem verður Vilhjálmur V.) og bera konungsnafnið Georg VII.