Reyndi að hemla án árangurs

Lestarstjórinn reyndi að hemla þegar viðvörunarbjöllur í stjórnklefa lestarinnar byrjuðu að hringja skömmu áður en lestin þeyttist af sporinu og hafnaði á vegg skammt frá borginni Santiago de Compostela á miðvikudagskvöldið. Honum tókst hins vegar ekki að afstýra slysinu. Þetta kemur fram í spænska blaðinu El País í dag.

Rannsókn á slysinu, sem er það mannskæðasta í spænskri lestarsögu frá árinu 1944 og kostaði 78 manns lífið, beinist einkum að hemlum lestarinnar og hraðakstri lestarstjórans.

Slysið átti sér stað í krappri beygju, A Gandeira, sem er í um 4 km fjarlægð frá borginni Santiago de Compostela.

Hrikalegt myndskeið úr öryggismyndavélum sýnir hvernig lestin hafnar á veggnum á ofsahraða en fram hefur komið að lestinni var ekið á 190 km hraða en hámarkshraði á þessum stað er 80 km á klukkustund. Lestarstjórinn á að hafa greint frá því strax eftir slysið á hvaða hraða hann var. Ekki hefur verið hægt að yfirheyra hann en hann hefur dvalið á sjúkrahúsi síðan slysið varð. Nú hefur lögregla hins vegar handtekið hann og verður hann því væntanlega yfirheyrður fljótlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka