Spænsk stjórnvöld lýstu í gær yfir þriggja daga þjóðarsorg vegna slyssins en í Galisíuhéraði, þar sem slysið átti sér stað, stendur hún yfir í sjö daga. Hátíðarhöld til heiðurs heilögum Jakobi, verndardýrlingi Spánar og lærisveininum sem Santiago-borg er nefnd eftir, áttu að hefjast í gær en öllum hátíðarhöldum var frestað.
Lestin var á leið frá höfuðborginni Madrid til hafnarborgarinnar Ferrol og voru 218 farþegar um borð auk fjögurra starfsmanna. Hún er af gerð lesta sem bæði geta gengið á hraðlestarsporum og venjulegum. Klukkuna vantaði um tuttugu mínútur í níu að staðartíma í fyrrakvöld þegar hörmungarnar dundu yfir.
Lestin, sem var með átta farþegavagna, fór út af sporinu í krappri beygju þegar hún var um 3-4 kílómetra frá aðallestarstöðinni í Santiago. Vagnarnir skullu á vegg af miklu afli og hlóðust hver upp á annan. Eldur kviknaði í nokkrum þeirra í kjölfarið.