Fórnarlömb slyssins borin til grafar

Útför þeirra 79 sem létust í lestarslysi á miðvikudag skammt frá borginni Santiago de Compostela verður haldin í borginni í dag. Bæði forsætisráðherra og meðlimir í konungsfjölskyldunni munu mæta í útförina.

Á vef breska ríkisútvarpsins kemur fram að forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, en hann er frá Santiago de Compostela, sé væntanlegur til borgarinnar sem og hluti konungsfjölskyldunnar.

Í gærkvöldi var lestarstjórinn, Francisco Jose Garzon Amo, látinn laus úr haldi og hefur hann verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi, samkvæmt frétt AFP fréttastofunnar. Aftur á móti segir á vef BBC að hann hafi ekki formlega verið ákærður en hann eigi það yfir höfði sér. Hann er talinn hafa ekið lestinni á mun meiri hraða en heimilt er. 

BBC hefur eftir spænskum yfirvöldum að 70 farþegar séu enn á sjúkrahúsi, þar af 22 mjög alvarlega slasaðir.

Garzon var yfirheyrður af dómara í gærkvöldi í tvær klukkustundir. Var hann síðan látinn laus en verður að tilkynna sig einu sinni í viku og er óheimilt að yfirgefa landið á meðan rannsókn slyssins stendur yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka