Lestarstjóri spænsku lestarinnar sem ók á vegg með þeim afleiðingum að 79 létust segist ekki vita hvað hann var að hugsa síðustu stundirnar fyrir slysið. Þetta kemur fram í afriti af vitnisburði Francisco Jose Garzons sem birtur er á vef El País í dag.
Garzon gaf vitnisburðinn áður en „svarta box“ lestarinnar var opnað. Þar kemur fram að hann hafi ekki verið nógu klikkaður til að reyna ekki að stöðva lestina. Hann hefur ekki verið formlega ákærður fyrir að bera ábyrgð á slysinu. BBC fjallar um þetta á vef sínum.
Yfirvöld hafa greint frá því að lestin hafi verið á 192 km hraða þrátt fyrir að hraðatakmarkanir á þessum slóðum séu 80 km hraði. Slysið varð í krappri beygju skammt frá borginni Santiago de Compostela.
Á mánudag var upplýst um að upptökur úr svarta kassanum sýni að Garzon var að spjalla í símann skömmu fyrir slysið. Eins að hann hafi verið að skoða gögn í spjaldtölvu sinni. Samkvæmt fréttum neitar hann að hafa neytt áfengis áður en hann tók við stjórn lestarinnar. Eins segist hann hafa verið að fara yfir vaktaplan og fleira tengt vinnunni í tölvunni. hann hafi hvorki skoðað Facebook né tölvupóstinn sinn.