„Ég var 11 ár í helvíti. Nú er þitt helvíti að byrja og þú verður í helvíti til eilífðar.“ Þetta sagði Michelle Knight þegar hún ávarpaði Ariel Castro, sem lokaði hana inni í 11 ár í Cleveland í Ohio. Castro var í dag dæmdur í fangelsi fyrir lífstíð.
Móðir Gina DeJesus og systir Amanda Berry ávörpuðu réttinn en Michelle Knight mætti sjálf í dómssalinn og ávarpaði kvalara sinn. Knight var sú fyrsta af konunum þremur sem Castro lokaði inni.
„Ég velti því fyrir mér hvort ég myndi nokkurn tímann sjá son minn aftur, en hann var aðeins tveggja og hálfs árs gamall þegar ég var svipt frelsi,“ sagði Knight. „Ég elskaði hann svo mikið og ég grét á hverri nóttu. Ég var alein. Dag hvern óttaðist ég hvað myndi koma fyrir aðrar stúlkur. Dagarnir voru langir og næturnar líka.
Ég taldi að öllum væri sama um mig. Þú sagðir mér að fjölskylda mín kærði sig ekki um mig. Jólin voru erfið því að ég fékk ekki að njóta þeirra með syni mínum. Enginn á skilið að þurfa að ganga í gegnum það sem ég þurfti að ganga í gegnum. Ég get ekki óskað mínum verstu óvinum að ganga í gegnum þetta.
Gina var sálufélagi minn. Við hugguðum hvor aðra á erfiðum stundum. Hún hjúkraði mér þegar ég var að deyja vegna ofbeldisins. Vinátta okkar er það eina góða sem kom út úr þessari vist. Við sögðum við hvor aðra að við myndum einhvern tímann fá frelsi.
Ariel Castro, þú sviptir mig 11 árum af lífi mínu, en nú hef ég endurheimt lífið. Ég bjó í 11 ár í helvíti og nú er líf mitt rétt að hefjast. Ég hef yfirstigið alla þessa erfiðleika til að lifa, en þín bíður vist í helvíti um alla eilífð. Ég mun lifa áfram en þú munt deyja. Ég vona að þú hugsir á hverjum degi um hvernig þú gast lagt þetta á okkur.
Hræsni þín sést best á því að þú fórst til kirkju á hverjum sunnudegi og komst svo heim til að kvelja okkur. Þú átt skilið að dvelja allt þitt líf í fangelsi.
Ég gæti fyrirgefið þér, en ég mun aldrei gleyma,“ sagði Knight.
Ariel Castro ávarpi réttinn og bast afsökunar á því sem sem hann hefði gert á hlut Amanda Berry, Michelle Knight og Gina de Jesu. Hann hafði í yfirheyrslum játaða á sig allar ákærur í málinu, en þær voru í 937 liðum.
Castro lagði í réttindum áherslu á að hann væri ekki ofbeldismaður. „Ég er ekki skrímsli,“ sagði hann, en bætti við að hann væri háður klámi og þessi veikleiki hefði tekið stjórnina í lífi sínu. Hann sagðist hafa lifað góðu lífi framan af ævinni. Hann hefði átt fjölskyldu, börn og notið velgengni í starfi og sem tónlistarmaður. Eftir að hann hefði skilið við konu sína hefði hann horft á klám í 2-3 klukkutíma á dag. Hann sagðist hafa verið háður klámi með sama hætti og alkóhólisti væri háður áfengi.
Castro reyndi í réttinum að draga upp þá mynd af heimili sínu, þar sem konurnar þrjár voru í haldi, að þar hefði verið eðlilegt heimilislíf. Hann sagðist aldrei hafa barið konurnar eða pyntað. Castro notaði tækifærið til að mótmæla því sem sonur hans hefur sagt í viðtölum, en hann hélt því fram að Castro hefði beitt eiginkonu sína ofbeldi. Castro sagði þetta ekki rétt.
Fram kom í réttarhaldinu í dag að Castro hefði leikið rússneska rúllettu með konunum þremur. Hann sagði við konurnar þegar hann mundaði byssuna, að ef skot hlypi af byssunni væri það guðs vilji.