Réttarhöld þar sem refsing ofbeldismannsins Ariels Castros verður ákveðin, eru hafin. Hann hefur játað að hafa rænt þremur konum og haldið föngnum í um áratug. Hann hefur einnig játað að hafa nauðgað þeim. Hann á þúsund ára fangelsisdóm yfir höfði sér.
Castro hélt konunum föngnum í húsi sínu í Cleveland í Ohio. Hann var ákærður í 977 ákæruliðum og játaði á sig 937 þeirra. „Ég vil biðjast afsökunar,“ sagði Castro við upphaf réttarhaldanna í dag þar sem refsing yfir honum verður ákveðin. Sjá mátti hann hrista höfuðið er saksóknari las upp kjarna þeirra brota sem hann er ákærður fyrir.
Hann féllst nýverið á lífstíðarfangelsisdóm án möguleika á reynslulausn. Í samkomulaginu fólst að hann yrði ekki dæmdur til dauða. Castro er 53 ára. Hann var handtekinn í maí eftir að einni stúlkunni tókst að strjúka.
Amanda Berry, 27 ára, Michelle Knight, 32 ára og Gina de Jesu, 23 ára, voru fórnarlömb Castros. Þær voru 14, 16 og 20 ára er hann rændi þeim.
Í dag var gefið út minnisblað þar sem þær lýsa raunum sínum en það er m.a. byggt á dabókarfærslum þeirra. Þær segjast m.a. hafa verið hlekkjaðar við vegg og læstar inni í myrku herbergi. Þær segja að Castro hafi komið fram við þær eins og dýr og óttuðust stöðugt næstu árás hans. Þær segja hann hafa ítrekað hótað þeim lífláti. Konurnar segjast hafa látið sig dreyma um að strjúka og að komast aftur til fjölskyldna sinna. Þær segjast hafa verið kvaldar af söknuði eftir fyrra líf sitt og ekkert þráð heitar en frelsið.