Taki refsiaðgerðir Evrópusambandsins gegn Færeyingum gildi vegna makríl- og síldveiða þeirra, sem gert er ráð fyrir að gerist innan átta daga, eiga Danir þess einn kost að framfylgja aðgerðunum og meina færeyskum fiskiskipum að landa í dönskum höfnum. Þetta sagði Karen Hækkerup, matvælaráðherra Danmerkur, á fundi í dag í þingnefnd um málefni Færeyja á vegum danska Þjóðþingsins samkvæmt færeyska fréttavefnum Portal.fo.
„Við getum ekki gert annað en að framfylgja ákvörðunum Evrópusambandsins þar sem Evrópudómstóllinn beitir sér að öðrum kosti gegn okkur. Við höfum ákveðnar skuldbindingar sem ESB-aðildarríki og þær hafa Færeyingar ekki og því munur á,“ sagði Hækkerup í samtali við fréttavefinn eftir fundinn en Færeyjar eru ekki í sambandinu. Fram kemur að ráðherrann hafi þó ekki misst alla von enn þar sem danska utanríkisráðuneytið hafi óskað eftir því við Evrópusambandið að það falli frá boðuðum refsiaðgerðum á meðan deilan er til meðferðar hjá gerðardómi Sameinuðu þjóðanna.
„Ég skil ekki að danska ríkisstjórnin skuli velja Evrópusambandið fram yfir sína eigin þegna í ríkjasambandinu og ég vildi óska að stjórnin gengi gegn ákvörðunum sambandsins í þessu máli,“ hefur Portal.fo eftir Søren Espersen, þingmanni Danska þjóðarflokksins, sem sat fund þingnefndarinnar og óskaði eftir því að Hækkerup kæmi á fund hennar.
Nánar verður fjallað um fyrirhugaðar refsiaðgerðir ESB gegn Færeyingum í Morgunblaðinu á morgun.