Reiði vegna lögregluofbeldis

Stilla úr myndskeiðinu þar sem lögregluþjónn sést sprauta táragasi í …
Stilla úr myndskeiðinu þar sem lögregluþjónn sést sprauta táragasi í augu konunnar. AFp

Hafin er rannsókn á myndskeiði sem birt hefur verið á YouTube og sýnir franska lögregluþjóna beita konu ofbeldi. Mikil reiði braust út meðal almennings í Frakklandi vegna málsins og hefur innanríkisráðherrann, Manuel Valls, blandað sér í málið.

Að sögn Valls hafa saksóknarar í borginni Tours fyrirskipað innri rannsókn á atvikinu. Í myndskeiðinu, sem nefnist Shame on the French police, sést lögregluþjónn berja konu með kylfu og sprauta táragasi beint inn í augu hennar.

Myndskeiðið var birt á YouTube á sunnudag og hafa tæplega 700 þúsund manns þegar horft á það.

Að sögn Valls er nauðsynlegt að sannleikurinn komi fram og að gagnsæi verði haft að leiðarljósi við rannsóknina. Störf lögreglunnar verða að vera óaðfinnanleg, líkt og þau eru í flestum tilvikum þrátt fyrir það hversu erfitt og vanþakklátt starf er um að ræða.

Myndskeiðið er tekið upp af húsþaki aðfaranótt laugardags í úthverfi Tours, Joue-les-Tours. Ekki sést í myndskeiðinu hvað varð upphafið að samskiptum tveggja lögregluþjóna og konunnar en samkvæmt frétt dagblaðsins La Nouvelle Republique hófust samskiptin með því að lögregla stöðvaði för bifreiðar sem valsaði til og frá milli akreina um sjöleytið um morguninn. 

Samkvæmt frétt blaðsins var ökumaður bifreiðarinnar drukkinn og neitaði að láta taka blóðsýni. Blaðið hefur eftir heimildum innan lögreglunnar að konan, sem var farþegi í bílnum, hafi skipt sér af og meðal annars bitið einn lögregluþjónanna.

Í myndskeiðinu sést lögregluþjónn reyna að hemja konuna, lemja hana nokkrum sinnum með kylfu og einu sinni í andlitið. Síðan sprautar hann táragasi í augu hennar.

Í síðasta mánuði fór myndband af lögreglumanni að handtaka konu í miðborg Reykjavíkur sem eldur í sinu á samfélagsmiðlum. Þótti mörgum sem lögreglumaðurinn hafi beitt konuna harðræði og var málinu vísað til ríkissaksóknara.

Stilla úr myndskeiðinu
Stilla úr myndskeiðinu AFP
Selim, 18 ára, sem tók upp ofbeldið og setti myndskeiðið …
Selim, 18 ára, sem tók upp ofbeldið og setti myndskeiðið á YouTube. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka