Réttarhöld eru hafin yfir Bo Xilai, fyrrverandi forystumanni Kínverska kommúnistaflokksins, sem ákærður er fyrir spillingu og valdníðslu, m.a. í tengslum við morðið á breskum kaupsýslumanni sem eiginkona hans hefur verið sakfelld fyrir.
Við upphaf réttarhaldanna í morgun lýsti Bo sig saklausan af fyrsta ákærulið, ásökunum um að hafa þegið fé frá tveimur kaupsýslumönnum. Þetta var í fyrsta sinn sem Bo kom fyrir almenningssjónir í tæplega 18 mánuði.
Bo, sem er 64 ára gamall var áður meðal 25 valdamestu manna Kína og var á hraðri uppleið í aðdraganda leiðtogaskiptanna í febrúar 2012. Eftir að hneykslismál þeirra hjóna komust í hámæli var hann hins vegar rekinn úr Kommúnistaflokknum með skömm.
Dómsmálið hefur því vakið gríðarlega athygli og er sagt það pólitískasta í landinu í áratugi. Fréttaritari BBC í Kína segir að dómshússins í Jinjan hafi verið vandlega gætt af vopnuðum lögreglumönnum í morgun og vegatálmar settir upp í nágrenni þess.
Kommúnistaflokkurinn er sagður staðráðinn í að láta ekki hanka sig á neinu í sambandi við réttarhöldin til að sýna að enginn stjórnmálamaður, hversu hátt settur sem hann er, sé hafinn yfir lögin.
Í nafni gegnsæis eru starfsmenn dómstólsins látnis tísta jafnóðum um það sem fram fer beint á Webo, kínversku útgáfu Twitter. BBC segir þó að viðkvæmar upplýsingar verði engu að síður væntanlega ritskoðaðar. Erlendum blaðamönnum er ekki veittur aðgangur að réttarsalnum.
Fastlega er búist við því að Bo verði fundinn sekur.