Móðir Mannings var alkóhólisti

Bradley Manning er umdeildur maður í Bandaríkjunum. Margir vildu að …
Bradley Manning er umdeildur maður í Bandaríkjunum. Margir vildu að hann fengi þungan dóm, en þeir eru líka margir sem krefjast þess að honum verði sleppt lausum. PAUL J. RICHARDS

Bradley Manning ólst upp hjá móður sem átti við alvarlegt áfengisvandamál að stríða. Hún var dagdrykkjumanneskja og drakk líka á meðgöngu. Hálfsystir Mannings gaf raunalega lýsingu á heimilislífinu þegar hún bar vitni við réttarhöldin yfir Manning.

Bresk móðir sem giftist bandarískum hermanni

Faðir Mannings, Brian Manning, hóf starfsferil í bandaríska sjóhernum, tæplega tvítugur. Hann starfaði um tíma í leyniþjónustunni. Manning hitti Susan Fox þegar hann gengdi herþjónustu í Wales. Hún átti þá eina dóttur, Casey Major.

Eftir að Brian Manning og Susan giftust fluttu þau til Bandaríkjanna og bjuggu fyrst í Kaliforníu og síðar í Oklahoma. Heimili þeirra í Oklahoma var í dreifbýli og þau voru með tvo hesta og einnig svín og hænur um tíma. Næstu nágrannar þeirra bjuggu í um eins kílómeters fjarlægð. Susan Manning var ekki með bílpróf og hún átti enga ættingja í Bandaríkjunum. Hún hallað sér að flöskunni í æ ríkari mæli.

Drakk gjarnan vodka

Casey Major, sem nú er 36 ára gömul og býr í Bandaríkjunum, sagði við réttarhöldin yfir Manning frá barnæsku sinni og þeim aðstæðum sem hálfbróðir hennar óls upp við. BBC segir frá framburði hennar. Hún sagði að móðir sín hefði drukkið mikið vodka því það hefði gert henni auðveldara að fela drykkjuna. „Ef þú blandar drykk með vodka finnst nær engin lykt,“ sagði Major og bætti við að hún hefði líka drukkið romm og bjór og eiginlega allt áfengi sem ratað hefði inn á heimilið.

Einn ættingi Manning-fjölskyldunnar sagði að hún hefði fundið fyrir blendnum tilfinningum þegar hún frétti af því að Susan væri ófrísk. Debra Van Alstyne sagði við réttarhöldin: „Fyrsta hugsun sem flögraði að manni var; frábært, en svo hugsaði maður; Ó-nei“.

Fæddist tæplega sjö merkur

Major sagði að móðir sín hefði haldið áfram að drekka eftir að hún varð ólétt, en þó ekki eins mikið og áður. Eftir fæðingu hefði hún fljótlega aukið drykkjuna á ný.

Þegar Bradley Manning fæddist var hann innan við sjö merkur eða helmingi léttari en venjulegt barn. Sérfræðingur sem bar vitni við réttarhöldin yfir Manning sagði að hann hafi borið öll einkenni um áfengisheilkenni fósturs (Fetal alcohol syndrome), sem er afleiðing þess að áfengi berst í gegnum fylgjuna frá móður til fósturs.

Major sagði að móðir sín hefði verið vinsamleg þegar hún var að byrja drykkjuna, en það var venjulega á miðjum degi. „Á kvöldin var hún orðin döpur. Hún hélt áfram að drekka þar til hún leið út af. Á morgnanna var hún andstyggileg. Hún var vön að æpa úr hinu herberginu og biðja okkur að koma með sígarettur og tebolla.“

Major sagðist hafa séð um bróður sinn þegar móðir hennar var ófær um það vegna drykkju. Hún hefði gefið honum mjólk að drekka á nóttunni þegar hann vaknaði og fór að gráta.

Major sagði að bróðir hennar hefði verið glaðlegur drengur sem hafi verið duglegur að leika sér.

Ók með móður sína á spítala eftir að hún reynd sjálfsvíg

Brestir voru komnir í hjónabandið þegar Bradley Manning var að komast á unglingsár. Major sagði frá því við réttarhöldin hvernig hún hefði upplifað skilnaðinn. „Mamma tók eitt glas af valíum og vakti mig upp um miðja nótt og sagði að hún hefði reynt að drepa sig.“

Major hringdi í neyðarlínuna, en fékk þau svör að það tæki of langan tíma fyrir sjúkrabíl að komast á staðinn. Hún kom því móður sinni út í bíl. Hún setti hana í aftursætið og bað stjúpföður sinn að sitja hjá henni og fylgjast með því hvort hún væri á lífi. Hann settist hins vegar í framsætið. „Því miður þurfti 12 ára bróðir minn að sitja í aftursætinu og fylgjast með því hvort móðir okkar væri enn á lífi,“ sagði Casey Major í vitnisstúkunni.

Gengið var frá skilnaðinum árið 2000 og Susan Manning flutti með börnin aftur til Bretlands, þar sem hún býr enn.

Brian Manning kynntist fljótlega annarri konu sem átti tvo syni frá fyrra sambandi. Bradley Manning tók því illa þegar synir hennar tóku upp eftirnafnið Manning og fannst sem þeir væru teknir fram yfir sig.

Susan Manning hefur lítið tjáð sig við fjölmiðla síðan sonur hennar var handtekin. Hún ræddi þó við breska blaðið Daily Mail í sumar og sagðist þar aldrei muni gefið upp von um að Manning fái frelsi á ný. Hún sagðist þó gera sér grein fyrir að ekki sé útilokað að hún sjái son sinn aldrei meir.

Susan Manning skrifaði William Hague, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, bréf fyrir tveimur árum og óskaði eftir að hann greiddi fyrir því að hún gæti heimsótt Manning. Hún var hins vegar ekki viðstödd réttarhöldin yfir honum.

Eldklár tölvumaður

Manning sýndi í skóla að hann átti auðvelt með að læra og allt sem snerti tölvur var honum eins og opin bók. Hann varð fyrir einelti í skóla í Wales, m.a. vegna þess að hann var eini Bandaríkjamaðurinn í skólanum. Brian Manning hélt sambandi við son sinn og útvegaði honum vinnu árið 2005 hjá tölvufyrirtækið í Oklahoma. Félagsleg samskipti voru hins vegar ekki sterkasta hlið Mannings og yfirmaður hans sagði honum upp störfum. Hann sagði í samtali við The Washington Post að sér hefði virst að enginn hefði annast þennan dreng í langan tíma.

Mannings skráði sig þá í bandaríska herinn. Manning fór síðan til starfa í Írak og hlóð þar niður gríðarlegu magni af gögnum um þátttöku Bandaríkjamanna í stríðunum í Írak og Afganistan og kom þeim til WikiLeaks. Manning var í gær dæmdur í 35 ára fangelsi fyrir að lekann.

Manning sendi frá sér yfirlýsingu í dag um að hann hefði frá barnæsku upplifað sig sem konu í líkama karlmanns og að hann ætlaði að fara í hormónameðferð í fangelsinu. „Ég er Chelsea Manning, ég er kona,“ segir í yfirlýsingu frá henni.

Bradley var átta ára þegar þessi mynd var tekin. Lengst …
Bradley var átta ára þegar þessi mynd var tekin. Lengst til vinstri er Susan, móðir hans, en með þeim á myndinni er frænka hans, Sharon. © Susan Manning
Bradley Manning var í gær dæmdur í 35 ára fangelsi.
Bradley Manning var í gær dæmdur í 35 ára fangelsi. JIM WATSON
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert