Erna og Jens styrkja stöðu sína

Allt bendir til að Erna Solberg verði næsti forsætisráðherra Noregs.
Allt bendir til að Erna Solberg verði næsti forsætisráðherra Noregs. HEIKO JUNGE

Nýjasta skoðanakönnun um fylgi flokkanna í Noregi leiðir í ljós að Hægriflokkurinn og Verkamannaflokkurinn hafa heldur styrkt stöðu sína frá síðustu könnun. Hægriflokkurinn, sem er undir forystu Ernu Solberg, mælist með 30,1% fylgi og Verkamannaflokkur Jens Stoltenbergs forsætisráðherra er með 29,1%.

Þó að Verkamannaflokkurinn hafi aukið fylgi sitt um eitt prósentustig frá síðustu könnun bendir fátt til að rauðgræna ríkisstjórnin, sem er undir forystu Stoltenbergs, haldi völdum. Samkvæmt könnuninni fengju hægriflokkarnir 98 þingmenn og vinstriflokkarnir 68 þingmenn.

Framfaraflokkurinn, sem er lengst til hægri í norskum stjórnmálum, mælist með 13,1% fylgi og fjórði stærsti flokkurinn er Kristilegi þjóðarflokkurinn, sem er miðflokkur og styður Ernu Solberg sem forsætisráðherraefni, er með 6,1% fylgi.

Í vetur mældist Hægriflokkurinn með um og yfir 35% fylgi. Bestu kosningar flokksins voru árið 1981 þegar hann fékk 31,7% og 1985 þegar hann fékk 30,4%. Í báðum þessum kosningum var Verkamannaflokkurinn stærsti flokkur landsins.

Andstæðingar Ernu Sólberg hafa sótt fast að henni síðustu vikur og segir norska blaðið VG að síðasta vika hafi verið henni erfið. Hún geti því vel við unað að hafa aukið fylgi sitt milli kannana.

Þingkosningar fara fram í Noregi mánudaginn 9. september.

Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs.
Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs. KAZUHIRO NOGI
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert