Bo Xilai, fyrrverandi leiðtogi kommúnistaflokksins í borginni Chongquing í Kína, sagði við réttarhöld í morgun að eiginkona hans væri geðveik. Lét hann ummælin um eiginkonuna falla eftir að myndskeið með framburði hennar var sýnt við réttarhöldin í morgun.
Réttarhöld hófust í gær yfir Bo en hann hefur verið ákærður fyrir mútuþægni og fjárdrátt og fyrir að hafa misbeitt valdi sínu til að hylma yfir morðið á breska kaupsýslumanninum Neil Heywood, sem kona Bos, Gu Kailai, var dæmd fyrir í fyrra.
Gu Kailai, var áður þekktur lögfræðingur í Kína. Hún situr nú í fangelsi og virtist taugaóstyrk á upptökunni sem sýnd var í morgun.
Hún lýsti brotum manns síns í myndskeiðinu en hann hafði lýst yfir sakleysi sínu í gær. Að sögn Bo er hún ekki heild á geði og að hún líki sér við þekktan kínverskan morðingja og að henni hafi liðið eins og hetju þegar hún myrti Heywood.
Hann tók fyrir að hafa þegið mútur að upphæð 1,1 milljón júön frá kaupsýslumanninum Tang Xiaolin og bar því við að hann hefði játað gegn vilja sínum við yfirheyrslur. Þá sagði hann rangt að hann hefði þegið fjármuni og gjafir að andvirði 20,7 milljón júön, þar á meðal villu í suðurhluta Frakklands, frá Xu Ming, stjórnarformanni fyrirtækjasamsteypunnar Shide Group.
Mál Bos hefur vakið gríðarlega athygli í Kína en hann var áður ein af vonarstjörnum kommúnistaflokksins og átti m.a. sæti í stjórnmálaráði flokksins, æðstu valdastofnun hans. Búist var við að hann yrði skipaður í fastanefnd ráðsins, sem tekur allar lykilákvarðanir í kínverskum stjórnmálum.
Á ferli sínum vakti Bo athygli fyrir viðleitni sína til að endurvekja hefðir frá stjórnartíð Mao en hann sendi m.a. embættismenn til starfa í sveitum landsins og skikkaði verkafólk til að syngja byltingarsöngva.