Bo Xilai, fyrrum forystumaður kínverska Kommúnistaflokksins, sem nú er réttað yfir vegna meintrar spillingar, valdníðslu og mútuþægni viðurkenndi fyrir rétti í dag að hann bæri „einhverja ábyrgð“ á fjárdrætti úr opinberum sjóðum og mistökum í tengslum við morð eiginkonu hans á breskum kaupsýslumanni.
Er þetta í fyrsta sinn sem Bo gengst við glæpunum, en hann lýsti sig saklausan af öllum ákæruliðum við upphaf réttarhaldanna.
Hann neitar því að hafa dregið sér fimm milljónir yuan (tæplega 96 milljónir íslenskra króna) sem ætlaðar voru til byggingarverkefnis en að hann ætti að bera einhverja ábyrgð á því að peningarnir hefðu endað á bankareikningi eiginkonu hans, Gu Kailai.
„Ég skammast mín. Ég var of kærulaus, því þetta er opinbert fé,“ sagði hann við réttarhöldin.
Bo, sem er 64 ára gamall var áður meðal 25 valdamestu manna Kína og var á hraðri uppleið í aðdraganda leiðtogaskiptanna í febrúar 2012. Eftir að hneykslismál þeirra hjóna komust í hámæli var hann hins vegar rekinn úr Kommúnistaflokknum með skömm.
Hann neitaði einnig sök í ákæru í valdníðslu í tengslum við morð Gu á breska kaupsýslumanninum Neil Heywood en hefur þó viðurkennt að hafa gert mistök í tengslum við rannsókn málsins.
Hann viðurkenndi m.a. að hafa slegið Wang Lijun, yfirmann lögreglunnar og hægri hönd Bo í Chongqing, og rekið hann úr starfi þegar Wang sagði honum að Gu bæri ábyrgð á dauða Heywood.