George Zimmerman, sem nýlega var sýknaður af morðinu á Trayvon Martin í mjög umdeildu dómsmáli, fór á dögunum í verslunarleiðangur á höttunum eftir nýrri skammbyssu.
Zimmerman heimsótti höfuðstöðvar Kel-Tec í Cocoa í Flórída-ríki á fimmtudag til að spyrjast fyrir um Kel-Tec KSG skammbyssuna, en Kel-Tec er sami byssuframleiðandi og smíðaði byssuna sem Zimmerman notaði til að myrða Martin. Hann játaði sem kunnugt er að hafa skotið Martin en var sýknaður á grundvelli sjálfsvarnarlaga.
Meðan á heimsókninni stóð fór Zimmerman í skoðunarferð um verksmiðjuna og sat jafnvel fyrir á mynd með syni eiganda fyrirtækisins. Myndina birti TMZ, en CNN fékk það staðfest frá bróður Zimmermans, Robert, að myndin væri af honum.
Óljóst er hvort Zimmerman lagði inn pöntun fyrir byssu, en þær eru ekki seldar í höfuðstöðvunum í Cocoa.
Þetta er ekki í eina skiptið sem Zimmerman hefur komist í fréttirnar eftir sýknudóminn, en í síðasta mánuði var hann stöðvaður fyrir hraðakstur í Texas og fannst skotvopn í hanskahólfi bílsins.
Í kjölfar sýknudómsins sagði Mark O'Mara, lögmaður Zimmermans, frá því að hann myndi fá vopnið sem hann notaði við morðið til baka. O'Mara kvað jafnvel enn meiri ástæðu til þess að Zimmerman væri vopnaður nú en áður því margir hötuðu hann nú.
Talsmaður O'Mara, Shawn Vincent, sagði Yahoo!-fréttastöðinni að þeir hefðu sannarlega ekki ráðlagt honum að heimsækja verksmiðjuna sem framleiddi byssuna sem hann notaði við morðið. „Það var ekki hluti af almannatengslaáætlun okkar.“
Vincent bætti við: „Við erum lögfræðiteymi George en ég held ekki að hann hlusti á ráðleggingar okkar um það hvernig hann eigi að lifa lífi sínu eða hvaða verksmiðjur hann eigi að heimsækja. Við fluttum mál hans fyrir dómi. Við fengum dóminn sem við teljum réttlátan, og það sem eftir er af lífi George er í hans höndum.“