Skrautlegum réttarhöldum yfir stjórnmálamanninum fallna Bo Xilai lauk í dag með því að saksóknarar fóru fram á þunga refsingu. Sérfræðingar telja að réttarhöldin hafi fyrst og fremst verið sýning, því líklegt sé að langur fangelsisdómur hafi þegar verið ákveðinn.
Upphaflega áttu réttarhöldin aðeins að standa í tvo daga en áður en yfir lauk höfðu þau staðið yfir í fimm daga og voru um margt óvenjuleg. M.a. fyrir þær sakir að Bo varðist með kjafti og klóm, þrátt fyrir að réttarhöldin hafi líklega að mestu leyti fylgt fyrirfram skrifuðu handriti.
AFP hefur eftir sérfræðingum í kínversku réttarfari að það sé fyrirfram gefið mál að Bo verði sakfelldur. Dauðadómur er hugsanlegur, samkvæmt kínverskum lögum, vegna meintrar mútuþægni. Saksóknari lagði á það áherslu við lok réttarhaldanna að sakarefnið væri „verulega alvarlegt“, Bo hefði ekkert sér til málsbóta og ætti ekki skilið neina miskunn.
Sjálfur var Bo einlægur í lokaávarpi sínu fyrir dóminum. Hann sagðist hafa unnið sleitulaust eins og skepna fyrir Kommúnistaflokkinn undanfarin 30 ár og á sama tíma ekki staðið sig í að koma böndum á fjölskyldu sína og undirmenn.
„Ég er djúpt sokkinn í harmleik þess að vera fastur í fangelsi. Alls konar tilfinningar ásækja mig og það eina sem ég á eftir, er sá tími sem ég á eftir ólifaðan.“