Bo Xilai sagði í lok réttarhalda yfir honum að það væri ekki rétt að hann sæktist eftir lúxusvörum. Hann klæddist t.d. 50 ára gömlum nærfötum. Saksóknari hvatti dómara til að sýna Bo enga vægð enda hefði hann ekki sýnt neina iðrun við réttarhöldin.
Bo, sem er 64 ára gamall, var áður meðal 25 valdamestu manna Kína og var á hraðri uppleið í aðdraganda leiðtogaskiptanna í febrúar 2012. Hann féll hins vegar í ónáð og nú er réttað yfir honum vegna meintrar spillingar, valdníðslu og mútuþægni.
Eitt af því sem saksóknari hefur borið honum á brýn er að hann hafi búið við mikinn lúxus meðan hann var einn af forystumönnum Kommúnistaflokksins. Hann hafi flogið á einkaflugvélum, átt lúxushús á frönsku Rivíerunni, borðað kjöt af sjaldgæfum dýrum, klætt sig í dýr föt o.s.frv.
Bo vísaði þessu á bug. „Ég hef engan áhuga á fötum. Ég er núna í síðum nærbuxum sem mamma mín keypti handa mér á sjöunda áratugnum,“ sagði Bo og bætti við að jakkinn sem hann væri í hefði verið saumaður í heimahéraði sínu í Kína.
Bo réðst einnig harkalega gegn Wang Lijun, sem var lögreglustjóri og heyrði undir Bo meðan hann var við völd. Wang leitaði hælis í bandaríska sendiráðinu í Kína í febrúar á síðasta ári sem leiddi til þess að ný rannsókn hófst á dauða breska kaupsýslumannsins Neils Heywoods. Gu Kailai, eiginkona Bos, hefur verið dæmd fyrir að bera ábyrgð á dauða hans. Wang sagði við réttarhöldin að Bo hefði gefið sér kjaftshögg eftir að hann sagði við Bo að Gu tengdist rannsókn á morðinu.
Bo sagði á lokadegi réttarhaldanna að Wang hefði verið ástfanginn af Gu og að framburður hans við réttarhöldin væri af þeim ástæðum ekki marktækur.