Um 300 argentínskar konur sem fengu brjóstafyllingar frá franska PIP fyrirtækinu hafa höfðað skaðabótamál gegn þremur evrópskum fyrirtækjum, að sögn lögfræðings hópsins.
Virginia Luna, lögfræðingur kvennanna, segir að konurnar fari fram á 54,7 milljónir Bandaríkjadala, 6,6 milljarða króna, í bætur frá franska brjóstapúðaframleiðandanum Poly Implant Protheses (PIP), þýska gæðaeftirlitsfyrirtækinu TUV Rheinland og þýska tryggingafélaginu Allianz.
Að sögn Luna er talið að í Argentínu hafi 15 þúsund konur fengið brjóstafyllingar frá PIP og því sé ekki ósennilegt að fleiri konur muni bætast í hópinn.
Hún segir að meðal 500 kvenna sem skoðaðar hafi verið reyndust 19% þeirra vera með leka púða. Hafði silíkonið lekið og fannst meðal annars undir höndum, í hálsi, höfði og jafnvel lungum kvennanna.
Í Frakklandi hafa læknar fjarlægt PIP púða úr rúmlega 16 þúsund konum og virðist sem fjórðungur þeirra hafi lekið.
Stofnandi PIP, Jean-Claude Mas, hefur verið ákærður fyrir manndráp og fjársvik. PIP púðar eru bannaðir og fyrirtækið er farið í þrot.