George Zimmerman, sem var ákærður fyrir að skjóta þeldökkan óvopnaðan unglingspilt til bana í fyrra, krefst þess að Flórída-ríki greiði allan sinn lögfræðikostnað. Málið vakti mikla athygli en Zimmerman var sýknaður af öllum ákærum í síðasta mánuði.
Verjandi Zimmermans greindi frá þessu í samtali við Orlando Sentinel. Upphæðin sem um ræðir hljóðar upp á 300.000 dali, eða sem nemur 36 milljónum kr.
Lögum samkvæmt skal Flórída greiða allan málskostnað þeirra sem eru sýknaðir í dómsmálum, þ.e. fyrir utan þóknun til lögmanna. Kostnaðurinn tekur m.a. til sérfræðinga sem voru kallaðir fyrir réttinn og gerð þrívíddarmyndbanda sem voru gerð til að sýna kviðdómendum í réttarsal.
Réttarhaldið hefur nú þegar kostað skattgreiðendur í Flórída 902.000 dali, eða sem jafngildir 108 milljónum kr.
Í kjölfar sýknudómsins hvatti Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, til stillingar eftir að Zimmermann var sýknaður.
Dauði drengsins, sem var 17 ára, olli mikilli reiði í Bandaríkjunum á sínum tíma og mótmæli brutust víða út eftir að dómsniðurstaðan lá fyrir. Málið er eldfimt enda varðar það gríðarlega umdeild mál í Bandaríkjunum eins og byssulöggjöf og kynþáttafordóma.