Mun meiri geislavirkni en talið var

Starfsmenn TEPCO við mælingar í síðustu viku.
Starfsmenn TEPCO við mælingar í síðustu viku. AFP

Yfirvöld í Japan segja að geislavirkni í námunda við kjarnorkuverið í Fukushima hafi mælst 18 sinnum meiri en menn höfðu áður talið. 

TEPCO, sem stjórnar kjarnorkuverinu, greindi frá því í síðustu viku að geislavirkt vatn hefði lekið úr kælitönkum og farið í jarðveginn. Fyrirtækið segir nú að mælingar á lekum tanki í gær hafi leitt í ljós að geislavirknin sé það mikil að hún geti dregið einstaklinga til dauða innan fjögurra klukkustunda frá því þeir komast í snertingu við mengunina.

Kjarnorkuverið skemmdist mikið í náttúruhamförum sem dundu yfir í mars árið 2011. 

TEPCO hafði upphaflega sagt að geislavirknin væri í kringum 100 millisívert á klukkustund. Nú er komið í ljós að búnaður sem fyrirtækið notaði til mælinga gat ekki mælt geislun yfir 100 millisívert. 

Með því að nota nýjan tækjabúnað hefur komið í ljós að mengunin mælist vera 1.800 millisívert á klst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert