Bandarísku sundkonunni Díönu Nyad tókst í dag að synda frá Kúbu til Flórída. Sundið tók hana 53 klukkustundir, en leiðin er 166 km. Nyad gat varla talað þegar hún gekk á land í Flórída, en tunga hennar var stokkbólgin eftir að hún synti innan um marglyttur.
„Þú átt aldrei að gefast upp,“ sagði Nyad þegar hún lauk sundinu og bætti við: „Maður er aldrei of gamall til að láta drauma sína rætast.“ Fjöldi fólks fagnaði þegar Nyad kom að landi í Key West í Flórída.
Myndskeið af Nyad koma að landi.
Það eru yfir 30 ár síðan Nyad ákvað að setja sér það markmið að synda frá Kúbu til Flórída. Hún gerði fyrst tilraun árið 1978, en varð að gefast upp. Þetta var fimmta tilraun Nyad til að synda þessa leið, en hún er orðin 64 ára gömul.
Það er einkum tvennt sem hefur valdið Nyad erfiðleikum í tilraunum til að synda þessa löngu leið, annars vegar veður og hins vegar marglyttur. Í fyrra, þegar hún neyddist til að gefast upp, var andlit hennar stokkbólgið vegna þess að hún hafði þurft að synda innan um marglyttur. Núna synti hún með sérstaka grímu á nóttunni, þegar marglytturnar eru aðallega á ferðinni. Gríman olli henni erfiðleikum við öndun, en hún varð hins vegar að nota hana. Marglytturnar trufluðu hana þó á sundinu og var tunga hennar svo bólgin þegar hún kláraði sundið að hún gat varla talað.
35 manna starfslið fylgdi Nyad frá Kúbu til Flórída. Hlutverk þess var m.a. að fylgjast með marglyttum og hákörlum sem geta verið þarna á ferð.
Reglur um sundið kveða á um að Nyad megi ekki stíga um borð í bát meðan á sundinu stendur og hún má heldur ekki grípa í borðstokkinn til að hvíla sig. Hún fékk hins vegar að borða og drekka á sundinu.