Norðmenn skiptast í tvo andstæða hópa þegar kemur að olíuvinnslu í Lofoten og Vesterålen. Samkvæmt skoðanakönnun BT og Aftenpostin styðja 39% Norðmanna olíuvinnslu þar en 41% er andvígt slíkri vinnslu þar.
Einn af hverjum fimm aðspurðra hefur ekki tekið ákvörðun um hvað skipti þá mestu þegar þeir ganga að kjörborðinu síðar í mánuðinum. Meðal þess sem rætt er um er olíuvinnsla og hlýnun jarðar.
Kjósendur Verkamannaflokksins skiptast í tvo nánast jafna hópa þegar kemur að olíuvinnslunni en stuðningsmenn annarra flokka en Græningja eru fylgjandi olíuborun í Lofoten, Vesterålen og Senja, samkvæmt frétt Aftenposten.
Latte-lepjandi Óslóarbúar
Ståle Ditlefsen starfsmaður í olíuiðnaði og sjómaður sem býr í Myre í Øksnes segir í samtali við Aftenposten að svæðið þurfi á aukinni atvinnu að halda. Hann segir að fólk í Ósló sem lepji latte kaffi á kaffihúsum geri sér ekki grein fyrir hver staðan sé á þessum slóðum. Það þurfi að skapa meiri atvinnu á svæðinu.