Spænskir fjölmiðlar hafa birt upptöku þar sem heyra má lestarstjórann sem stýrði lestinni sem fór út af teinunum við bæinn Santiago de Compostela segja félaga sínum að hann sé á 190 km hraða.
Heimilaður hámarkshraði á þessum stað er 80 km á klukkustund. 79 létust og um 170 slösuðust í slysinu sem átti sér stað í júlí.
Lestarstjórinn Francisco Jose Garzon heyrist segja félaga sínum frá því á hvaða hraða hann er, auk þess sem hann kvartar yfir því hversu erfið beygjan sé þar sem slysið varð. Garzon hefur verið ákærður fyrir að bera ábyrgð á dauða farþeganna auk þess að hafa valdið slysinu með gáleysi í starfi.