Framfaraflokkurinn tapar fylgi

Allt stefnir í hægristjórn í Noregi undir forsæti Hægriflokksins samkvæmt þremur skoðanakönnunum sem birtar voru í gær. Norðmenn ganga að kjörborðinu á mánudag.

Samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í Verdens Gang í gær fá borgaraflokkarnir 96 af 169 þingsætum á norska Stórþinginu. Alls eru borgaraflokkarnir, hægri og miðflokkar, fjórir talsins, Hægriflokkurinn, Framfaraflokkurinn, Kristilegi þjóðarflokkurinn og Venstre.

Mið- og vinstriflokkarnir sem mynda núverandi stjórn, undir forsæti Jens Stoltenbergs fengju 72 þingsæti samkvæmt könnuninni.

Framfaraflokkurinn virðist tapa miklu fylgi frá síðustu kosningum en þá fékk hann 22,9% en samkvæmt VG fær flokkurinn 14,2% á mánudaginn. Ekki er staðan betri hjá Verkamannaflokknum sem fékk 35,4% í þingkosningunum árið 2009 en samkvæmt VG fær flokkurinn  28,6% á mánudag. Hann verður samt sem áður áfram stærsti flokkurinn en Hægri flokkurinn er skammt á eftir með 27,3% atkvæða samkvæmt VG.

Erna Solberg, formaður Hægriflokksins, hvetur alla til að mæta á kjörstað. Að öðrum kosti náist ekki fram þær breytingar sem fólk vill. Allt bendir til þess að hún verði næsti forsætisráðherra landsins.

Í könnun sem TNS Gallup vann og birt var í TV2 í gærkvöldi er niðurstaðan svipuð, 96 þingsæti til borgaraflokkanna og 72 til vinstriflokkanna.

Aftenposten birti einnig könnun í gær og staðan þar var 99 og 69, hægrimönnum í vil.

Ef Framfaraflokkurinn tekur þátt í nýrri ríkisstjórn þá verður þetta í fyrsta skipti sem Framfaraflokkurinn kemst til valda frá því hann var stofnaður fyrir fjórum áratugum.

Framfaraflokkurinn var næststærsti flokkurinn í síðustu þingkosningum í Noregi fyrir fjórum árum, fékk þá 22,9% atkvæða og 41 þingsæti. Hann hefur reyndar verið næststærstur í þrennum kosningum, á árunum 1997, 2005 og 2009, en aðrir flokkar, sem hafa sakað hann um öfgastefnu, hafa hingað til hafnað stjórnarsamstarfi við hann, að því er fram kom í frétt Morgunblaðsins í gær. Allt bendir hins vegar til þess að Framfaraflokkurinn fái færri þingsæti nú heldur en í síðustu kosningum þegar hann fékk 41 sæti á þingi.

Hægriflokkurinn léði máls á samstarfi við Framfaraflokkinn í síðustu kosningum en miðflokkarnir Kristilegi þjóðarflokkurinn og Venstre tóku það ekki í mál. Andstaðan við flokkinn hefur hins vegar minnkað í miðflokkunum. Eins og staðan er núna er talið líklegast að Hægriflokkurinn og Framfaraflokkurinn myndi minnihlutastjórn með stuðningi miðflokkanna tveggja. Þótt flokkarnir fjórir deili um margt, t.a.m. um málefni innflytjenda og umhverfismál, eru þeir á einu máli um að mestu máli skipti að binda enda á átta ára valdatíma vinstriflokkanna.

Framfaraflokkurinn hefur lagt áherslu á að lækka skatta, tryggja frelsi einstaklingsins, draga úr skriffinnsku og koma á auknu markaðsfrelsi. Hann er einnig hlynntur því að olíusjóður Noregs verði notaður til að fjárfesta í innviðum landsins.

Framfaraflokkurinn hefur verið sakaður um að ala á hatri á útlendingum, einkum múslímum, en flokkurinn fordæmdi fjöldamorð Anders Behring Breivik og hefur mildað tóninn í yfirlýsingum sínum um innflytjendamál. Hann er þó enn hlynntur því að löggjöfin um innflytjendur verði hert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert