Hægriflokkarnir ræða saman

Þreifingar eru hafnar á milli hægriflokkanna í Noregi um myndun nýrrar ríkisstjórnar í kjölfar þess að þeir fengu samanlagt meirihluta atkvæða í þingkosningunum sem fram fóru í landinu í gær. Fram kemur á fréttavef norska dagblaðsins Aftenposten í dag að forystumenn flokkanna hafi fundað í dag þar sem farið hafi verið yfir það hvar þeir ættu samleið og hvar ekki.

Talið er líklegast að ný ríkisstjórn verði mynduð af þremur hægriflokkanna í ljósi niðurstaðna kosninganna en flokkarnir eru fjórir. Hægriflokkurinn og Framfaraflokkurinn verða væntanlega í nýrri ríkisstjórn takist að mynda hægristjórn en flokkarnir tveir þurfa hins vegar einungis annan hinna flokkanna, Venstre eða Kristilega þjóðarflokkinn, með sér til þess að hafa þingmeirihluta. Líklegast er talið að Venstre verði fyrir valinu þar sem flokkurinn standi nær stefnumálum Hægriflokksins og Framfaraflokksins.

Ekki er þó útilokað að um fjögurra flokka ríkisstjórn verði að ræða enda yrði þriggja flokka stjórn með mjög nauman meirihluta hvort sem hún yrði með þátttöku Venstre eða Kristilega þjóðarflokksins. Þannig hefði ríkisstjórn Hægriflokksins, Framfaraflokksins og Kristilega þjóðarflokksins samtals 87 þingsæti af 169 og með Venstre í stað Kristilega þjóðarflokksins væri meirihlutinn 86 sæti en 85 þingsæti þarf til að hafa meirihluta.

Hvort sem um fjögurra eða þriggja flokka ríkisstjórn verður annars að ræða þykir ljóst að næsti forsætisráðherra Noregs verði Erna Solberg, leiðtogi Hægriflokksins, að því gefnu að það takist að mynda slíka stjórn. Haft er eftir henni í frétt Aftenposten að ríkisstjórnarskipti fari ekki fram fyrr en eftir fimm vikur og því hafi hægriflokkarnir góðan tíma til þess að semja um myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Erna Solberg, leiðtogi Hægriflokksins.
Erna Solberg, leiðtogi Hægriflokksins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert