Tilvonandi forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg, fékk að sofa út í morgun og svaraði eiginmaður hennar, Sindre Finnes, spurningum fjölmiðlafólks sem sem beið fyrir utan heimili þeirra snemma í morgun. Noregur hefur aldrei verið jafn blár og nú segja stjórnmálaskýrendur.
„Erna fær að sofa í hálftíma í viðbót,“ segir Finnes við fréttamennina sem standa fyrir utan heimili þeirra í Smestad í Ólsó en Solberg mun ræða við fréttamenn klukkan 10 að norskum tíma, klukkan átta að íslenskum tíma og verður hægt að fylgjast með beinni útsendingu á vef Aftenposten.
Á vef norska ríkisútvarpsins kemur fram að Verkamannaflokkurinn hafi fengið 55 þingmenn og tapað 9 þingmönnum frá síðustu kosningum. Þrátt fyrir tap er Verkamannaflokkurinn enn stærsti flokkur Noregs, með 30,9% fylgi.
Hægriflokkurinn fékk 48 menn kjörna á þing sem er fjölgun um 18 þingmenn frá síðustu kosningum. Flokkurinn er með 26,8% atkvæða.
Framfaraflokkurinn er með 29 þingmenn og tapar tólf þingmönnum. Er flokkurinn með 16,4% fylgi.
Aðrir flokkar fengu minna fylgi en hægt er að skoða nánar hér
Finnes sér fram á að sjá minna af konu sinni næstu árin en hingað til. Hann segist eiga von á því að þau flytji í forsætisráðherrabústaðinn eftir fimm eða sex vikur.
Solberg sagði á kosningavöku Hægriflokksins í gærkvöldi að nú myndi fara af stað vinna í að mynda ríkisstjórn mið- og hægriflokkanna en ekki liggur fyrir hvort allir flokkarnir munu fá ráðherra eða hvort minni flokkarnir tveir, Venstre og kristilegir demókratar munu styðja stjórnina.