„Járn-Erna“ bíður krýningar

Nýjar hugmyndir, betri lausnir. Erna Solberg ræðir við stuðningsmenn sína.
Nýjar hugmyndir, betri lausnir. Erna Solberg ræðir við stuðningsmenn sína. AFP

Hún er nú kölluð hin norska Angela Merkel. Gráa músin og járnfrúin eru einnig orð sem notuð hafa verið til að lýsa Ernu Solberg, valdamestu konu Noregs um þessar mundir.

Solberg lýsti yfir „sögulegum sigri“ fyrir íhaldsflokka Noregs í kjölfar þingkosninganna á mánudag. Hægriflokkur hennar, sem ekki hefur leitt ríkisstjórn síðan 1990, vann tæp 27% atkvæða og jók fylgi sitt um 9,6 prósentustig með 18 nýjum þingmönnum, á meðan Verkamannaflokkur Jens Stoltenberg tapaði 9 þingsætum.

Fastlega er búist við því að Solberg myndi ríkisstjórn með Framfaraflokknum með stuðningi annars hvors eða beggja miðjuflokkanna, Venstre og Kristilega þjóðflokknum og verði önnur konan í sögu Noregs til að gegna embætti forsætisráðherra, á eftir Gro Harlem Brundtland.

En hver er Erna Solberg? Fjölmiðlar í Skandinavíu keppast nú við að púsla saman mynd af þessum nýja leiðtoga Noregs.

„Gráa músin“ leyndi á sér

Stjórnmálaskýrendur segja hana fremur tilþrifalítinn stjórnmálamann sem skorti persónutöfra, en það virðist ekki hafa staðið í vegi fyrir því að „hin nýja drottning Noregs bíði þess eins að vera krýnd“ eins og leiðarahöfundur danska blaðsins Politiken komst að orði í gær. Hún er sögð lipur í samskiptum en um leið föst fyrir.

Solberg lauk BA prófi í stjórnmálafræði og meistaragráðu í hagfræði frá háskólanum í Bergen. Hún á langan feril í stjórnmálum að baki og tók sín fyrstu skref ung að árum í sveitarstjórn.

Aðeins 28 ára gömul var hún kjörin á þing og var þá lýst sem látlausri konu, „lítilli grárri mús“sem tranaði sér ekki fram heldur ynni staðföst að sínum málefnum. Hún hefur setið á þingi síðan 1989  og smám saman unnið sig til metorða.

Breytti ímyndinni eftir kosningaósigur

Kjörtímabilið 2001-2005  gegndi hún ráðherraembætti í ríkisstjórn Kjell Magne Bondevik. Það var á þeim tíma sem norskir fjölmiðlar fóru að kalla hana „Járn-Ernu“, vegna einarðrar afstöðu hennar í málefnum hælisleitenda. 

„Þegar blaðamenn hafa einu sinni gefið þér viðurnefni þá er mjög erfitt að losna við það,“ sagði Solberg eitt sinn í viðtali.

Hún varð leiðtogi Hægriflokksins árið 2004 en eftir kosningaósigur árið eftir tók hún markvissa ákvörðun um að breyta ímynd bæði sinni og flokksins með því að beina sjónum í auknum mæli að „mýkri“ málum eins og málefnum aldraðra, menntun og heilbrigðiskerfinu. Hún hefur leitt Hægriflokkinn allar götur síðan, undir slagorðinu „Fólk, ekki peningar.“ 

Þybbinn og lesblindur Prince-aðdáandi

Solberg er 52 ára gömul, gift og tveggja barna móðir. Hún er lesblind og er sögð eitilharður Prince-aðdáandi. Fjölskylda hennar og samstarfsfólk lýsa henni sem metnaðarfullri keppnismanneskju. „Hún vill vinna í öllum leikjum, líka á móti börnunum í fjölskyldunni,“ sagði systir hennar Ingrid í viðtali við TV2.

Eins og gjarnan vill verða með konur í sviðsljósinu hefur talsvert verið smjattað á útliti hennar og sagði einn kollegi hennar, þingmaðurinn Magnus Staveland, í viðtali við norska Dagbladet að Solberg hafi verið lögð í einelti „vegna þess að hún er þybbin, vegna þess hvernig hárið á henni er og hvaða fötum hún klæðist.“

Sjálf yppir hún bara öxlum yfir þessum málflutningi. „Ég á spegil. Ég veit að ég er stór og feit,“ sagði Solberg í viðtali við Dagbladet árið 2002.

Fjölmiðlaráðgjafinn Kjell Terje Ringdal tjáði sig um holdafar Solberg árið 2009, þegar hann lýsti því yfir að útlitið drægi úr kjörþokka hennar og fældi kjósendur frá henni.

„Erna er í svo mikilli yfirvigt að margir heyra ekkert hvað hún er að segja heldur hugsa í staðinn með sér: Getur hún haft sjálfsstjórn, þegar hún borðar svona mikið,“ sagði hann en reyndist hafa algjörlega rangt fyrir sér því aðeins 4 árum síðar stendur Erna með pálmann í höndunum.

Snúin stjórnarmyndun framundan

Solberg hefur m.a. lagt til að skattar verði lækkaðir í Noregi og að skoðað verði að skipta olíusjóðunum upp.  Fyrstu 100 daga sína í embætti segist hún ætla að leggja áherslu á menntamálin auk þess sem forgangsmál verður að stytta biðlista eftir heilbrigðisþjónustu og fjárfesta í innviðum.

Hún hefur lagt áherslu á að hún hyggist ekki skerða verlferðarkerfið, heldur auka einkarekstur á ákveðnum sviðum til að auka skilvirknina. „Við erum frjálslyndur íhaldsflokkur. Við gerum ekki neinar byltingar. Það væri algerlega andstætt hugmyndafræði okkar,“ hefur Solberg sagt.

Horfur eru á flóknum stjórnarmyndunarviðræðum í Noregi milli borgaraflokkanna fjögurra og óvíst er hver útkoman verður. „Við þurfum öll að gefa og þiggja. Ég tel að við höfum góðan grundvöll að byggja á, en allir verða erfiðir viðsemjendur,“ sagði Solberg á blaðamannafundi í gær. 

Erna Solberg ræddi við fjölmiðla utan við heimili sitt í …
Erna Solberg ræddi við fjölmiðla utan við heimili sitt í Ósló í gærmorgun. AFP
Kosningabaráttan í Noregi snérist í meira mæli en áður um …
Kosningabaráttan í Noregi snérist í meira mæli en áður um valið milli leiðtoga: Jens Stoltenberg og Ernu Solberg. AFP
Erna Solberg greiddi atkvæði í heimaborg sinni Bergen á mánudag.
Erna Solberg greiddi atkvæði í heimaborg sinni Bergen á mánudag. AFP
Bláklædd Solberg tók við bláum blómum þegar hún lýsti yfir …
Bláklædd Solberg tók við bláum blómum þegar hún lýsti yfir sögulegum sigri íhaldsflokka Noregs að kvöldi kjördags 9. september. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert