Solberg til varnar Framfaraflokknum

Jens Stoltenberg, fráfarandi forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg, leiðtogi Hægriflokksins, og …
Jens Stoltenberg, fráfarandi forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg, leiðtogi Hægriflokksins, og Siv Jensen, leiðtogi Framfaraflokksins. AFP

„Framfaraflokkurinn er hægrisinnaður flokkur en elur ekki á útlendingaandúð. Hluti þeirrar innflytjendastefnu sem hann leggur áherslu á hefur þegar verið innleidd annars staðar á Norðurlöndum.“

Þetta sagði Erna Solberg, leiðtogi Hægriflokksins, í samtali við norska sjónvarpsmanninn Fredrik Skavlan í dag samkvæmt fréttavefnum Thelocal.no. Sagði hún ennfremur gagnrýni sem komið hefði á Framfaraflokkinn í erlendum fjölmiðlum í kjölfar þingkosninganna í Noregi síðastliðinn mánudag, þar sem flokkurinn hefur verið sakaður um útlendingaandúð og verið tengdur við norska fjöldamorðingjann Anders Behring Breivik, vera ósanngjarna.

Hægriflokkarnir í Noregi náðu meirihluta þingsæta á norska Stórþinginu í kosningunum og er gert ráð fyrir að hægristjórn taki við völdum í landinu í byrjun næsta mánaðar undir forystu Solberg. Búist er við að Hægriflokkurinn og Framfaraflokkurinn myndi stjórnina með einum eða tveimur minni flokkum. Fari Framfaraflokkurinn í ríkisstjórn er það í fyrsta skipti sem það gerist en flokkurinn var upphaflega stofnaður á áttunda áratug síðustu aldar.

Ennfremur segir í fréttinni að norska utanríkisráðuneytið hafi hafnað kröfu Framfaraflokksins um að taka til varna fyrir hann erlendis. Þess í stað hefur ráðuneytið áframsent fyrirspurnir um stefnu flokksins til hans auk þess að vekja athygli forystumanna flokksins á erlendri umfjöllun sem þeir kynnu að vilja svara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert