Óttast að upp úr sjóði í Grikklandi

AFP

Þúsundir opinberra starfsmanna ætla að taka þátt í mótmælum í höfuðborg Grikklands, Aþenu, í dag. Er það niðurskurður hjá hinu opinbera sem er ástæða mótmælanna.

Óttast er að upp úr sjóði í dag í kjölfar þess að listamaður og baráttumaður gegn kynþáttahatri var stunginn til bana í nótt. Hefur lögregla handtekið morðingjann en hann er í öfgahreyfingunni Gullin dögun sem hefur orðið uppvís að árásum á innflytjendur.

Pavlos Fyssas, 34 ára listamaður, var stunginn til bana í úthverfi Aþenu í nótt eftir að hafa lent í harkalegri deilu um fótbolta. Gullin dögun hefur mótmælt því að tengjast morðinu en ekki er talið ólíklegt að morðið verði olía á eld átaka í landinu.

Á mánudag tóku að minnsta kosti 17 þúsund kennarar og aðrir opinberir starfsmenn þátt í fundum þar sem ástandinu í landinu var mótmælt. Undanfarin fjögur ár hefur harkalegur niðurskurður verið eitt helsta markmið ríkisstjórnar landsins.

Í dag ætla læknar, starfsmenn á skrifstofum hins opinbera og kennarar að taka þátt í mótmælafundum í Aþenu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert