Hvíta ekkjan frá Banbridge

Vafalaust hafa fáir heyrt um hina tæplega þrítugu Samantha Lewthwaite og þá síður um Sherafiyah Lewthwaite. Hún er engu að síður á forsíðum dagblaða þessa dagana en þá undir viðurnefninu „Hvíta ekkjan“ og talin hafa staðið að baki hryðjuverkaárásinni í Naíróbí. Jafnframt hefur verið sagt að hún sé öll.

Lewthwaite er fædd 5. desember 1983 og er frá enska smábænum Banbridge í County Down. Þegar hún var tveggja ára fluttist fjölskylda hennar þó til Aylesbury í Buckinghamskíri þar sem hún ólst upp.

Fátt hefur verið ritað um æsku Lewthwaite en sagt er að hún hafi snúist til íslam á táningsaldri þegar foreldrar hann gengu í gegnum skilnað. Þá er sagt að hún hafi varið miklum tíma hjá múslímskum nágrönnum sínum þar sem hún hafi fundið hugarró.

Ennfremur er greint frá því að þegar Samantha komst á þrítugsaldurinn hafi hún farið að spjalla við Germaine Lindsay í gegnum spjallforrit á netinu. Spjallið leiddi til þess að þau hittust og gengu í hjónaband árið 2005 þegar hún var 22 ára.

Germaine Maurice Lindsay var tveimur árum yngri en Samantha. Hann fæddist á Jamaíku en flutti til Bretlands með foreldrum sínum þegar hann var fimm ára. Síðar flutti hann til Aylesbury þar sem hann svo bjó lengst af.

Lindsay gekk í hjónaband með hinni írsku Aoife Nadiyah Molloy en skildi við hana átta dögum eftir að giftingu til þess að ganga að eiga Samantha Lewthwaite.

Lindsay og Lewthwaite bjuggu saman og eignuðust tvö börn. Raunar eignaðist Samantha seinna barn þeirra eftir að Lindsay lést, en hann sprengdi sig upp í árásum á almenna borgara í lestaferð á milli King's Cross St. Pancras and Russell Square í Lundúnum 7. júlí 2005. Í sjálfsvígssprengjuárásinni létust 26 saklausir borgarar. Fleiri árásir voru gerðar í lestarvögnum þann sama dag og dóu því á fjórða tug manna.

Samantha neitaði aðild eiginmanns síns að sprengingunni þar til lögregla hafði óyggjandi sannanir. Þá sagðist hún hafa viðbjóð á ódæðisverkinu og að öfgamenn hefðu eitrað huga eiginmanns síns.

Eftir þetta heyrðist lítið frá Samantha eða Sherafiyah en hún tók upp síðara nafnið. Greint hefur verið frá því að hún hafi hitt síðari eiginmann sinn fáeinum árum eftir að Lindsay lést og gengið með honum í hjónaband. Sá heitir Habib Ghani og eiga þau eitt barn.

Samantha og Ghani fluttu til Afríku eftir að hafa verið í búskap á norðurhluta Englands um tíma. Í febrúar 2012 var greint frá því að lögregluyfirvöld í Kenía væru á eftir Samantha eftir að falsað vegabréf hennar fannst í húsnæði samtaka sem talin eru tengjast hryðjuverkasamtökum.

Þá var sagt frá því í ágúst síðastliðnum að hún væri grunuð um að hafa staðið að handsprengjuárás á bar í Mombasa á sama tíma og knattspyrnuleikur Englands og Ítalíu á Evrópumótinu í knattspyrnu stóð yfir.

Breskir fjölmiðlar greindu svo frá því fyrr í þessum mánuði að Ghani, sem einnig kallaði sig Osama al-Britani, hefði látið lífið í skotbardaga í Sómalíu. Sagt er að hann hafi fallið í sama bardaga og Omar Hammami sem betur er þekktur undir nafninu Al-Amriki eða Ameríkaninn. Þeir voru báðir meðlimir í hryðjuverkasamtökunum Al-Shabaab.

Samantha er sjálf sögð vera áhrifamanneskja innan hryðjuverkasamtakanna og nú síðast er hún sögð hafa staðið að baki hryðjuverkaárásinni í Naíróbí.

Ekki eru öll kurl komin til grafar en nokkrir fjölmiðlar hafa haldið því fram að Samantha hafi látið lífið í árásinni.

Utanríkisráðuneyti Bretlands hefur neitað að tjá sig um ummæli utanríkisráðherra Kenía þess efnis að Samantha hafi verið á meðal árásarmannanna. Bretar muni þó aðstoða við rannsókn á allan hátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert