Rússneskt strandgæsluskip hefur handtekið 30 liðsmenn Grænfriðunga í N-Íshafi, en þeir voru að mótmæla olíuborun á svæðinu. Saksóknari í Rússlandi hefur sakað þá um sjórán.
Tveir Grænfriðungar reyndu að klifra upp á rússneskan olíuborpall á N-Íshafi, nærri Novaja Zemlya. Þeir vildu með þessu mótmæla olíuvinnslu á norðurslóðum. Hópurinn var handtekinn í síðustu viku og var skip þeirra dregið til hafnar í Múrmansk.
Saksóknari í Rússlandi sakar Grænfriðunga um sjórán, en hámarksrefsing við slíkum glæp er 15 ár.
Vladimir Pútin, forseti Rússlands, tjáði sig um málið í gær. Hann sagði ljóst að Grænfriðungarnir hefðu ekki staðið að sjóráni. Strandgæslan hefði hins vegar þurft að gera ráð fyrir þeim möguleika að menn sem þóttust vera Grænfriðungar hefðu staðið að sjóráni. Pútin sagði að menn hefðu orðið að gera ráð fyrir hinu versta og tengdi málið við hryðjuverkin í Kenía.