Gæti staðið utan stjórnarinnar

Erna Solberg, formaður Hægriflokksins í Noregi.
Erna Solberg, formaður Hægriflokksins í Noregi. AFP

Kristilegi þjóðarflokkurinn í Noregi kann að hafna stjórnarsamstarfi við norska Framfaraflokkinn á þeim forsendum að flokkurinn hafi ekki tekist að hafa taumhald á þeim hluta meðlima sinna sem leggjast gegn því að fleiri innflytjendur fái að setjast að í landinu. Frá þessu er greint á fréttavef norska dagblaðsins VG.

Enn er þannig með öllu óljóst hvort allir fjórir hægriflokkarnir í Noregi taki þátt í nýrri ríkisstjórn undir forystu Ernu Solberg, formanns Hægriflokksins. Þingkosningar fóru fram þann 9. september síðastliðinn og hlutu hægriflokkarnir meirihluta þingsæta í þeim. Hins vegar þarf aðeins Hægriflokkinn og Framfaraflokkinn auk annars af hinum tveimur flokkunum til þess að hafa tæpan meirihluta. Það er Kristilega þjóðar flokkinn eða Venstre.

Haft er eftir formanni Kristilega þjóðarflokksins, Knut Arild Hareide, á fréttavef norska dagblaðsins Aftenposten í dag að hægristjórn verði í landinu hvort sem flokkur hans verði þar innanborðs eða ekki. Náist ekki ásættanlegt samkomulag um stjórnarmyndun verði Kristilegi þjóðarflokkurinn einfaldlega í stjórnarandstöðu. Fundur hefur staðið yfir á milli flokkanna frá því í morgun og stendur enn.

Gert er ráð fyrir að ný ríkisstjórn taki við völdum um miðjan næsta mánuð þannig að enn er talsverður tími til stefnu við stjórnarmyndunina. Takmarkaðar upplýsingar hafa hins vegar verið um eiginlegan gang viðræðnanna hvað málefnin varðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert