Mótmæla innflytjendahatri

Blóm lögð á staðinn þar sem Pavlos Fyssas var stunginn …
Blóm lögð á staðinn þar sem Pavlos Fyssas var stunginn til bana AFP

Hatri gegn innflytjendum verður mótmælt í Aþenu, höfuðborg Grikklands, í dag. Beinast mótmælin einkum gegn nýnasistaflokknum Gullin dögun sem hefur barist hatramlega gegn innflytjendum í landinu. Lítið þarf til að upp úr sjóði í Grikklandi þar sem verkföll eru nánast daglegt brauð.

Þann 18. september var listamaðurinn og baráttumaður gegn kynþáttahatri Pavlos Fyssas stunginn til bana af George Roupakias, atvinnulausum bílstjóra sem er fylgismaður nýnasista. Hann hefur játað á sig morðið en segir að um sjálfsvörn hafi verið að ræða. Í kjölfar morðsins hóf lögregla aðgerðir gegn nýnasistahreyfingunni en hún er talin tengjast morðinu.

Undanfarna mánuði hefur Gullin dögun verið sökuð um að standa á bak við ofbeldi gagnvart innflytjendum og pólitískum andstæðingum hreyfingarinnar. Hafa jafnvel þingmenn hreyfingarinnar blandast inn í árásirnar án þess að lögreglan hafi rannsakað þær til hlítar. Við morðið á Fyssas virðist sem eitthvað hafi breyst í þessum málaflokki og hafa nokkrir háttsettir menn innan lögreglunnar verið reknir undanfarna daga, samkvæmt frétt AFP. 

Lögregla leitaði á skrifstofum Gullinnar dögunnar í vikunni og þar fundust vopn og eins virðist sem samtökin standi fyrir námskeiðum fyrir liðsmenn sína þar sem þeim eru kennd ýmis bolabrögð sem hægt er að beita.

Í gær var síðan lögregluþjónn sem er er í samtökunum handekinn og saksóttur fyrir kynþáttaníð. 

Frétt Huffington Post

Frétt BBC

Guardian

RT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert