Árásin í Kenía þaulskipulögð

Kenískir og erlendir sérfræðingar rannsökuðu í gær rústirnar eftir átökin við íslamska hryðjuverkamenn, sem höfðu í verslunarmiðstöðina Westgate í Naíróbí í Kenía á valdi sínu í fjóra daga. Staðfest hefur verið að 67 manns hafi látið lífið og tuga manna er saknað. Dagblaðið The New York Timesgreindi frá því að árásin á miðstöðina hefði verið vandlega skipulögð og hryðjuverkamenn samtakanna al-Shebab hefðu falið vopn í verslunarmiðstöðinni, sem er að hluta í eigu útlendinga og var vinsæl meðal útlendinga og velmegandi íbúa höfuðborgar Kenía.

Margar hreyfingar

Íslamskir hryðjuverkamenn hafa víða látið til skarar skríða í Afríku undanfarið. Árásin í Kenía er aðeins nýjasta dæmið. Al-Qaeda í íslömsku Maghreb, AQIM, nefnist kvísl út frá al-Qaeda í Afríku sem tók þátt í að leggja undir sig norðurhluta Malí í fyrra og koma þar á sjaría-lögum. AQIM eru talin stærstu og hættulegustu hryðjuverkasamtök í Afríku. Tveir íslamskir hópar studdu samtökin, Ansar Din og Hreyfing fyrir einingu og Jíhad í Vestur-Afríku sem þekkt er undir frönsku skammstöfuninni MUJAO. Tímaritið Foreign Policyhefur eftir bandarískum embættismönnum að nígerískir vígamenn hafi streymt til Malí í fyrra til að fá reynslu á vígvellinum og þjálfun í búðum samtakanna. Franski herinn hrakti samtökin þrenn brott frá Malí fyrr á þessu ári, en þau hafa sótt að herjum Frakka, Malí og Einingarsamtaka Afríku með sjálfsmorðsárásum og fyrirsátum.

Því er haldið fram að liðsmenn AQIM hafi þjálfað líbísku vígamennina, sem eyðilögðu bandarísku ræðismannsskrifstofuna í Benghazi í Líbíu og myrtu Christopher Stevens sendiherra og þrjá aðra bandaríska ríkisborgara. Tengdur hryðjuverkahópur, Ansar al-Sjaría, gerði árásina. Markmið samtakanna er að koma á sjaría-lögum um alla Líbíu.

Ansar Bayt-al-Maqdis nefnist lítið þekkt hryðjuverkahreyfing í Egyptalandi sem hefur ásamt vígamönnum úr röðum bedúína gert árásir á egypska hermenn og lögregluforingja á Sínaískaga. Hreyfingin er einnig sögð hafa skotið eldflaugum þaðan á Ísrael.

Samtökin Boko Haram í Nígeríu vilja einnig koma á sjaríalögum og hafa framið blóðug hryðjuverk. 2011 lýstu þau yfir ábyrgð á árás á bækistöðvar Sameinuðu þjóðanna í Mogadishu þar sem 23 létu lífið.

Keníubúar hafa fengið sinn skerf af hryðjuverkum. Árið 1998 sprengdu liðsmenn al-Qaeda sprengju í flutningabíl fyrir utan bandaríska sendiráðið í Naíróbí. 212 manns létu lífið og 4.000 særðust.

Dauðakippir eða í vexti?

Samtökin al-Shebab hafa verið í blóðugri uppreisn gegn stjórnvöldum í Sómalíu. Stjórn landsins, sem nýtur stuðnings Bandaríkjamanna, stendur veikum fótum. Samtökin hafa nú látið til skarar skríða í tveimur löndum, sem lagt hafa til hermenn í friðargæslulið Einingarsamtaka Afríku í Sómalíu. Árið 2010 réðust tveir menn með sprengjur bundnar um sig inn í mannfjölda, sem safnast hafði saman til að horfa á leik í heimsmeistarakeppninni í fótbolta í Úganda, og sprengdu sig í loft upp. 74 menn létu lífið og mörg hundruð manns særðust. Þetta var fyrsta hryðjuverk al-Shebab utan Sómalíu.

Al-Shabab, sem merkir æskan á arabísku, hefur verið á undanhaldi eftir að keníski herinn kom til liðs við þann sómalíska og her Eþíópíu 2011. Sérfræðingar eru hins vegar ekki á einu máli um hvort árásin á verslunarmiðstöðina í Naíróbí ber því vitni að þau séu að styrkjast á ný eða hafi verið aðgerð samtaka í andarslitrunum.

Það veldur hins vegar áhyggjum að ungir menn, svokallaðir „hryðjuverkatúristar“, flestir af sómalískum uppruna, frá meðal annars Bretlandi og Bandaríkjunum hafa farið til liðs við al-Shebab. Óttast bresk og bandarísk yfirvöld að þeir kunni að snúa aftur þrautþjálfaðir til að fremja hryðjuverk og er reynt að fylgjast með þeim.

Þótt eitthvert samstarf sé á milli þessara hreyfinga eru þær laustengdar. „Ekkert gæti verið fjær lagi en að spyrða saman hryllinginn í Naíróbí og annað ofbeldi jihadista á meginlandi Afríku,“ segir Jean-Pierre Filiu stjórnmálafræðingur. „Hver þeirra berst við staðbundinn óvin, það er ekkert samræmi í aðgerðum eða samræmd stjórn, bara sami áróðurinn um heilagt stríð.“

Sumir sérfræðingar segja hins vegar að leiðtogar al-Qaeda í Afganistan og Pakistan, sem hafa átt undir högg að sækja vegna árása ómannaðra, bandarískra loftfara, líti á Afríku sem vettvang til útþenslu. Þeir telji að þar geti þeir spornað gegn hnignun samtakanna.

„Eftir því sem forusta kjarna al-Qaeda hefur veikst og mótlæti gegn henni aukist hafa hryðjuverkasamtökin í auknum mæli leitað eftir samstarfi á svæðinu í kringum og sunnan Sahara til að ná vopnum sínum og fá nýjan kraft,“ segir Valentina Soria, fræðimaður við konunglega rannsóknarstofnun í London. Í skýrslu hennar, sem nefnist „Heilagt heimsstríð í Afríku“ segir hún að eftir að samband komst á við kjarna al-Qaeda hafi samtök á borð við AQIM og al-Shebab þróast með svipuðum hætti hvað varði skipulagningu og málflutning.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert