Þingmenn Gullinnar dögunar ákærðir

Um 100 stuðningsmenn öfgaflokksins Gullin dögun voru fyrir utan dómshúsið í Aþenu þegar fjórir þingmenn flokksins voru færðir fyrir dómara og þeir ákærðir.

Ilias Kasidiaris, Yiannis Lagos, Nikos Michos og Ilias Panagiotaros voru fluttir úr fangaklefa í höfuðstöðvum lögreglunnar í Aþenu í dómshúsið. Gríðarleg öryggisgæsla var með fangaflutningunum. Stuðningmenn stjórnmálaflokksins kölluðu til þingmanna sinna að þeir væru hetjur er þeir voru færðir inn í dómshúsið.

Þrír félagar í flokknum höfðu fyrr í dag komið fyrir dómara. Tveir voru látnir lausir en sá þriðji þarf að mæta fyrir dómara á ný á fimmtudag. Stofnandi og leiðtogi Gullinnar dögunar, Nikos Michaloliakos, un koma fyrir dómara á morgun en varaformaður flokksins, Christos Pappas, á fimmtudag.

Rannsóknardómari skoðar nú tengsl Gullinnar dögunar við á annan tug mála, þar á meðal tvö morð, þrjár morðtilraunir, tvö rán og íkveikju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert